Skoraði, lagði upp og sá rautt er Barcelona lagði Spánar­meistara Atlético Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dani Alves fagnar ásamt Jordi Alba, Ronald Araújo og Frenkie de Jong.
Dani Alves fagnar ásamt Jordi Alba, Ronald Araújo og Frenkie de Jong. EPA-EFE/Alejandro Garcia

Brasilíski hægri bakvörðurinn Dani Alves var svo sannarlega allt í öllu er Barcelona vann mikilvægan 4-2 sigur á Spánarmeisturum Atlético Madríd í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, í dag.

Lærisveinar Xavi Hernández eru í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð og þurftu nauðsynlega á sigri þegar Spánarmeistarar Atl. Madríd heimsóttu nývang í dag.

Það má með sanni segja að gamla brýnið Dani Alves hafi verið allt í öllu hjá heimamönnum en það var annað gamalt brýni – fyrrum Börsungurinn Luis Suárez – sem átti stóran þátt í að gestirnir frá Madríd náðu forystunni í dag. Úrúgvæinn átti frábæra sendingu inn fyrir vörn heimamanna og Yannick Carrasco gat ekki annað en skorað.

Meistararnir voru þó ekki lengi í paradís en tveimur mínútum síðar lagði Alves boltann á hinn bakvörð Börsunga, Jordi Alba, sem skoraði með frábæru skoti. Staðan orðin 1-1 eftir aðeins tíu mínútna leik.

Rúmum tíu mínútum síðar óð Adama Traoré upp hægri vænginn. Hann lyfti boltanum svo inn á teig þar sem hinn smávaxni Gavi skallaði boltann af öllu afli í netið og staðan orðin 2-1 heimamönnum í vil.

João Félix fékk dauðafæri til að jafna metin skömmu síðar en Marc-Andre ter Stegen varði meistaralega í markinu. Það var svo skömmu fyrir lok fyrri hálfleik sem heimamenn komust í 3-1.

Áðurnefndur Suárez braut klaufalega af sér og heimamenn fengu aukaspyrnu. Ferrán Torres lyfti boltanum inn á teig, hann féll fyrir fætur miðvarðarins Ronald Araújo sem skoraði af öryggi og heimamenn tveimur mörkum yfir í hálfleik.

Það var svo Dani Alves sem gerði út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks þegar frábært skot hans fyrir utan teig söng í netinu. 

Staðan orðin 4-1 en það átti þó nóg eftir að gerast. Suárez minnkaði muninn skömmu síðar og á 69. mínútu fékk Dani Alves beint rautt spjald og heimamenn því tíu það sem eftir lifði leiks. Það kom ekki að sök og Barcelona vann 4-2 sigur í einkar fjörugum leik. Sigurinn lyftir Börsungum upp fyrir Atl. Madríd í töflunni. 

Barcelona nú í 4. sæti með 38 stig eftir 22 leiki, 12 stigum minna en topplið Real Madríd. Atlético er með 36 stig í 5. sæti La Liga.

Diego Simeone og Xavi Hernández á hliaðrlínunni í dag.EPA-EFE/Alejandro Garcia

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira