Erlent

24 látin eftir aur­skriður og flóð í Ekvador

Atli Ísleifsson skrifar
Mestu aurflóðin hafa verið í hverfunum La Gasca og La Comuna í Quito.
Mestu aurflóðin hafa verið í hverfunum La Gasca og La Comuna í Quito. AP

Að minnstu 24 eru látin og tugir eru slasaðir eftir að aurskriður hafa fallið víðs vegar í ekvadorsku höfuðborginni Quito. Úrhellisrigning hefur verið í landinu síðustu daga sem hefur svo framkallað aurskriðurnar og aurflóð.

Talsmaður yfirvalda segir flóðin og aurskriðurnar þær verstu í landinu í tvo áratugi. Auk hinna látnu og slösuðu er tuga manna enn saknað.

Stærsta aurskriðan og mestu flóðin hafa verið í hverfunum La Gasca og La Comuna og hafa hamfarirnar sömuleiðis valdið umfangsmiklu rafmagnsleysi í borginni.

Erlendir fjölmiðlar segja aurflóðin sums staðar hafa náð allt að þremur metrum og hrifsað með sér bíla, ruslatunnur og ýmislegt annað lauslegt. Þá féll ein aurskriðan á íþróttavöll þar sem blakleikmenn voru að æfa fyrir framan áhorfendur.

Stór hluti íbúa höfuðborgarinnar hefur verið fluttur í neyðarskýli vegna hamfaranna og þá hafa yfirvöld lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg til að minnast fórnarlamba.

Að neðan má sjá myndir frá Quito þar sem eyðileggingin birtist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×