Fótbolti

Serb­neskur fjöl­miðla­mógúll kaupir Dýr­lingana

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dragan Solak er nú eigandi Southampton.
Dragan Solak er nú eigandi Southampton. United Media Team/PA

Dragan Solak, serbneskur fjölmiðlamógúll, hefur keypt enska knattspyrnufélagið Southampton fyrir 100 milljónir punda. Dýrlingarnir sitja sem stendur í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tíu stigum fyrir ofan fallsæti.

Heimildir fréttastofu Sky News herma að Solak, stofnandi fjölmiðlaveldisins United Group, hafi lagt út dágóðan hlut af auðæfum til þess að eignast Dýrlingana. 

Sky greinir einnig frá að United Group sé áhugasamt um að kaupa lið í fleiri löndum og feta þar með í fótspor eigenda Manchester City sem eiga félög - eða hlut í þeim - í Englandi, Bandaríkjunum, Belgíu, Ástralíu, Ítalíu, Indlandi, Úrúgvæ, Japan og Kína.

Southampton svaraði ekki er Sky reyndi ítrekað að ná tali af forráðamönnum félagsins varðandi eigendaskiptin.

Southampton ku hafa verið á höttunum á eftir nýjum eiganda í þónokkra mánuði. Gao Jisheng, kínverskur viðskiptamaður, keypti 80 prósent hlut í félaginu árið 2017 en virðist ekki hafa lagt sitt af mörkum á undanförnum misserum.

Hann hefur nú selt sinn hlut og vonast stuðningsfólk Southampton til þess að Solak geti lyft félaginu upp töfluna. Sem stendur situr félagið í 14. sæti með 21 stig eftir 19 umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×