Innlent

Eitt­hvað borið á erfið­leikum með raf­ræn öku­skír­teini í Reykjavík

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá kjörstað í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Kosningarnar nú eru þær fyrstu þar sem rafræn ökuskírteini eru í umferð.
Frá kjörstað í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Kosningarnar nú eru þær fyrstu þar sem rafræn ökuskírteini eru í umferð. Vísir/Vilhelm

Borið hefur á einhverjum erfiðleikum með að staðreyna rafræn ökuskírteini kjósenda sem hafa vísað þeim fram á kjörstöðum í Reykjavík í morgun. Oddviti yfirkjörstjórnar segist þó ekki hafa heyrt af neinum verulegum vandkvæðum.

Alþingiskosningarnar í dag eru þær fyrstu þar sem kjósendur geta notað rafrænt ökuskírteini sem persónuskilríki á kjörstað. Einhverjar áhyggjur hafa verið uppi um að erfiðleikar gætu komið upp við að staðreyna þau.

Erla S. Árnadóttir, oddviti yfirkjörstjórnar í Reykjavík, segir staðreyna þurfi ökuskírteinin með að skanna þau. Einhvað hafi borið á erfiðleikum með það í morgun. Hún hafi ekki fengið skýringar á hvers konar vandamál hafi komið upp með að staðreyna skilríkin.

„Það er þá hægt að nota aðrar aðferðir til að staðreyna hver kjósandinn er. Ég hef ekki heyrt um nein veruleg vandkvæði varðandi þetta,“ segir hún við Vísi.

Starfsfólki kjörstjórnar var gerð grein fyrir því fyrir kjördag að þær aðstæður gætu komið upp að rétt væri að spyrja fólk hvort það hefði önnur skilríki með sér.

Hvað sem mögulegum vandræðum með staðfestingu á rafærnum ökuskírteinum líður hefur kjörsókn í Reykjavík verið mun betri en í síðustu Alþingiskosningum. Klukkan ellefu höfðu 6,96% greitt atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi norður, borið saman við 5,62% á sama tíma á kjördag 2017. Í Reykjavíkurkjördæmi suður höfðu 7,01% greitt atkvæði klukkan ellefu en 5,78% fyrir fjórum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×