Innlent

Í fram­boði fyrir tvo flokka í sitt­hvoru kjör­dæminu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ágúst Heiðar virðist vera eftirsóttasti frambjóðandinn í komandi Alþingiskosningum.
Ágúst Heiðar virðist vera eftirsóttasti frambjóðandinn í komandi Alþingiskosningum. Vísir/samsett

Ágúst Heiðar Ólafsson, kerfóðrari í Norðuráli, er í öðru sæti á framboðslista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi. Ekki nóg með það heldur er hann einnig í fjórtánda sæti á framboðslista Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þrátt fyrir að vera búsettur á Akranesi og já, í framboði fyrir annan flokk.

Flokkur fólksins birti framboðslista sinn fyrir komandi Alþingiskosningar í Norðvesturkjördæmi fyrr í dag. Austurfrétt varð vör við það að frambjóðandinn væri á tveimur framboðslistum, sem vekur mikla furðu.

Ágúst Heiðar segir í samtali við Austurfrétt að hann hafi þegið sæti hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum fyrir nokkru síðan þegar Guðmundur Franklín Jónsson, formaður flokksins, nefndi það við hann.

„Guðmundur Franklín spurði mig í persónu hvort ég hefði áhuga á að taka 14. sæti og ég sagði já. Hann vissi að ég bjó á Akranesi þannig ég tel það hafi bara verið mannleg mistök að setja mig á lista fyrir Norðausturkjördæmið,“ sagði Ágúst í samtali við Austurfrétt, en ekki náðist tal af honum við gerð þessarar fréttar.

Hann sé í Flokki fólksins og ætli sér að vera í framboði fyrir þann flokk en ekki Frjálslynda lýðræðisflokkinn.

„Enn eitt skemmdarverkið frá Flokki fólksins“

Ágúst mun láta af sæti sínu á lista Frjálslynda lýðræðisflokksins en sonur Guðmundar Franklíns mun skipa sætið í hans stað. Guðmundur segir í samtali við Austurfrétt að þetta sé með ólíkindum.

„Þetta er með ólíkindum. Þetta er enn eitt skemmdarverkið frá Flokki fólksins.“

Tvískráningin kom í ljós á síðustu stundu en framboðsfrestur rennur út á morgun, þegar flokkarnir sem hyggjast bjóða fram til Alþingis þurfa að skila listum fyrir hádegi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×