Viðskipti innlent

Segir verðmætar flugrekstrarhandbækur horfnar og krefst skýrslutöku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Michele Ballarin var á dögunum sökuð um að hafa logið til um fasteign sem hún sagðist eiga.
Michele Ballarin var á dögunum sökuð um að hafa logið til um fasteign sem hún sagðist eiga. Vísir

Athafnakonan Michele Ballarin hefur óskað eftir því að teknar verði vitnaskýrslur af ellefu einstaklingum sem tengjast WOW air, vegna flugrekstrarhandbóka sem eru sagðar horfnar.

Bækurnar voru meðal þess sem átti að fylgja þegar fyrirtæki Ballarin keypti eignir af þrotabúi WOW air. Þær hafa hins vegar ekki fundist, að því er fram kemur í kröfugerð sem Páll Ágúst Ólafsson lögmaður hefur sent Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hönd Ballarin.

Í Fréttablaðinu í dag segir að um sé að ræða eina verðmætustu eignina sem keypt var að þrotabúinu. Bækurnar séu meðal annars forsenda þess að flugrekstrarleyfi fáist hjá Samgöngustofu.

Meðal bókanna séu þjálfunarhandbók, gæðahandbók, viðhaldshandbók og öryggishandbók.

„Umbjóðandi minn hefur ástæðu til að ætla að afrit hafi verið tekið af framangreindum flugrekstrarhandbókum, ásamt fylgiskjölum, án heimildar og vitneskju umbjóðanda míns, og gögnin hagnýtt af þriðja aðila til þess að sækja um flugrekstrarleyfi,“ hermir Fréttablaðið eftir Páli.

Umrætt flugfélag sé Play en meðal þeirra sem krafist er að teknar verði skýrslur af eru Arnar Már Magnússon, Sveinn Ingi Steinþórsson og Þóroddur Þóroddsson, forsvarsmenn Play.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×