Innlent

Fólk verði að til­kynna grun um man­sal

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Karl Steinar Valsson er yfirmaður alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra.
Karl Steinar Valsson er yfirmaður alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra. Lögreglan

Lög­reglan fór ný­verið í átak til að upp­lýsa al­menning um ein­kenni mansals og auð­velda fólki að til­kynna það til lög­reglu bæði ef það heldur sjálft að það sé þolandi mansals og ef það telur sig vita af man­sali.

Karl Steinar Vals­son, yfir­maður al­þjóða­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra, segir að það sé til­tölu­lega ný­legt vanda­mál á Ís­landi að skipu­lagðir brota­hópar horfi til þess hvernig þeir geti nýtt sér man­sal í gróða­skyni. Það hafi fylgt því þegar flótta­menn fóru að streyma til Evrópu í auknum mæli í kring um árið 2014.

Margir ómeðvitaðir um að þeir séu þolendur mansals

Hann segir mega skipta man­sali í tvennt; annars vegar vinnuman­sal og hins vegar man­sal sem tengist vændis­starf­semi og kyn­lífs­iðnaðinum.

Mikil­vægt sé að allir séu með­vitaðir um helstu ein­kenni mansals:

„Þetta getur komið fram í því, til dæmis, að það sé ekki verið að greiða þér pening fyrir þína vinnu. Það fylgja þessu oft á­kveðnar hótanir og hlutir eins og það að þú búir við ó­við­unandi að­stæður eða látinn dvelja ein­hvers staðar gegn þínum vilja,“ sagði Karl Steinar í Reykja­vík síð­degis í dag.

„Oft eru líka settar ein­hverjar hömlur á ferða­frelsið – þú megir ekki fara án þess að láta vita eða vega­bréfið hrein­lega tekið af þér. Þetta getur birst með þessum hætti.“

Hann segir eitt helsta vanda­málið við að upp­ræta vandann það að fólk átti sig oft ekki á því að það sé þol­endur mansals:

„Því miður er það oft að koma úr mjög erfiðu um­hverfi sem að markast kannski af því að þeim finnst þetta jafn­vel betra sem þau eru í í dag heldur en það sem þau höfðu áður. Það er kannski sá þáttur sem við og önnur lönd í Evrópu­löndum erum að vinna í,“ sagði hann.

Því þurfi á­kveðinn sam­taka­mátt til að takast á við vandann: „Við eigum öll að láta okkur það varða hvernig sam­fé­lagi við búum í og hvað við viljum ekki að við­gangist í okkar sam­fé­lagi.“

Ábendingar almennings veiti oft nýja sýn

Lög­reglan opnaði ný­lega nýja undir­síðu á heima­síðu neyðar­línunnar 112.is þar sem hægt er að til­kynna grun um man­sal með ein­földum hætti. Karl Steinar segir mikil­vægt að fólk veigri sér ekki við að til­kynna um slíkt.

„Það skiptir mjög miklu máli. Við erum oft að leita að nokkrum mis­munandi púslum og það er oft þannig að fólk sér hlutina með ó­líkum hætti. Þannig að þú sem borgari verður kannski var við ein­hver sam­skipti sem þér finnst mjög ó­eðli­leg,“ segir hann.

Spurður hvað taki við fólki sem losnar úr man­sali segir hann það mis­jafnt: „En það er náttúru­lega ætlun okkar að styðja og styrkja þá ein­stak­linga sem eru í þeirri stöðu svo þeim sé raun­veru­lega hjálpað. Og það er kannski það sem við þurfum að sann­færa þau um, til þess að þau vinni með yfir­völdum, að staða þeirra versni ekki við að stíga fram og segja söguna.“

Á nýju upp­lýsinga­síðunni má finna lista yfir það sem getur verið man­sal – það er ef ein­hver:

  • Greiðir þér ekki pening fyrir vinnu þína.
  • Hótar þér eða fjölskyldu þinni ofbeldi ef þú gerir ekki eitthvað.
  • Neyðir þig til að búa við óviðunandi aðstæður.
  • Heldur þér gegn vilja þínum á einhverjum stað.
  • Tekur af þér vegabréf eða önnur mikilvæg skjöl.
  • Falsar eða útvegar þér vegabréf.
  • Borgar ferðakostnað þinn hingað og lætur þig borga skuldina með því að vinna.
  • Nýtir fíkn þína til að fá þig til að gera eitthvað.
  • Bannar þér að tala um aðstæður þínar við fjölskyldu, vini eða yfirvöld.
  • Bannar þér að sækja heilbrigðisþjónustu eða vill koma með þér til læknis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×