Erlent

Dómur yfir „Bosníu-slátraranum“ stendur ó­ra­skaður

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lífstíðardómur yfir Ratko Maldic var í dag staðfestur.
Lífstíðardómur yfir Ratko Maldic var í dag staðfestur. EPA-EFE/Jerry Lampen

Dómstóll Sameinuðu þjóðanna staðfesti í dag lífstíðardóm yfir bosníuserbneska herforingjanum Ratko Mladic. Maldic hafði áfrýjað dómi, sem féll árið 2017, þar sem hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir þátt sinn í þjóðernishreinsunum í Bosníu.

Mladic var sérstaklega dæmdur fyrir þátt sinn í fjöldamorðunum í Srebrenica árið 1995, þar sem um 8.000 bosnískir múslimar, drengir og menn, voru myrtir. Fjöldamorðin, sem voru framin á svæði sem átti að vera undir vernd Sameinuðu þjóðanna, er eitt versta ódæði sem framið hefur verið í Evrópu eftir lok seinni heimstyrjaldar.

Enn er ekki ljóst hvar Mladic mun afplána lífstíðardóminn. Fimm dómarar sátu í áfrýjunardómstólnum og komust þeir að þeirri niðurstöðu að Mladic hafi ekki tekist að sanna það að fyrri dómur hafi ekki átt rétt á sér.

Mladic hefur fordæmt dómstólinn og sagt að honum sé stjórnað af vestrænum öflum. Lögmenn hans héldu því fram í réttarhöldunum að hann hafi verið fjarri Srebrenica þegar fjöldamorðin áttu sér stað.

Mladic, sem er einnig þekktur sem „Bosníu-slátrarinn“, er meðal síðustu herforingjanna frá Júgóslavíu sem hefur setið réttarhöld hjá Alþjóðlegum refsidómstól Sameinuðu þjóðanna. Hann var handtekinn árið 2011 eftir 16 ár á flótta.

Árið 2017 var hann dæmdur sekur fyrir þátt sinn í blóðbaðinu í Srebrenica en var sýknaður fyrir þjóðarmorð sem hersveitir hans frömdu árið 1992 gegn bosníökum og bosnískum-Króötum.

Árið 2016 dæmdi sami dómstóll Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníuserba, í fjörutíu ára fangelsi fyrir að hafa skipulagt fjöldamorðin í Srebrenica, auk annarra glæpa. Dómnum var hins vegar breytt í lífstíðarfangelsi árið 2019 og mun hann afplána fangelsisvistina í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×