Erlent

Samþykkja vopna­hlé á Gasa

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Benjamín Netanjahú kallaði ríkisstjórn sína á fund klukkan fimm í dag.
Benjamín Netanjahú kallaði ríkisstjórn sína á fund klukkan fimm í dag. Getty/Artur Widak

Ísraelar hafa ákveðið að samþykkja vopnahléssamning en hafa enn ekki ákveðið hvenær hann á að taka gildi. Ríkisstjórn Benjamíns Netanjahú hefur fundað um vopnahlé frá klukkan fimm í dag.

Í tilkynningu frá ríkisstjórn Ísrael segir að Egyptar hafi stungið upp á samningnum og að hann verði „gagnkvæmur og skilyrðislaus“.

Á þriðja hundrað hafa fallið frá því Ísraelar hófu formlegar aðgerðir á Gasasvæðinu þann 11. maí. Í aðdragandanum höfðu Hamas-samtökin skotið eldflaugum að ísraelskum borgum eftir átök Palestínumanna og ísraelsku lögreglunnar við á Musterishæðinni.

Egyptar, Frakkar og Jórdaníumenn hafa fundað sín á milli síðustu daga og mótað tillögu um vopnahlé. Utanríkisráðherra Egypta hitti palestínska erindreka í dag en Egyptar hafa lofað um sextíu milljörðum króna í enduruppbyggingu á Gasasvæðinu.

Breska ríkisútvarpið sagði Ísraela hafa tjáð Egyptum fyrir ríkisstjórnarfundinn að ísraelsk stjórnvöld séu samþykk vopnahléi.

Líbanskir miðlar greindu svo frá því á sjötta tímanum að Hamas hafi samþykkt vopnahlé og höfðu eftir heimildarmönnum að þrýstingur Bandaríkjamanna hafi gert útslagið fyrir Ísraela.

Ljóst er þó að vopnahlé eitt og sér leysir ekki úr þeim djúpstæða ágreiningi sem á milli Ísraelsstjórnar, Hamas-samtakanna og annarra Palestínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×