Innlent

Brynja Dan í fram­boð fyrir Fram­sókn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Brynja Dan er stofnandi Extraloppunnar.
Brynja Dan er stofnandi Extraloppunnar. visir

Brynja Dan Gunnars­dóttir mun skipa annað sæti á lista Fram­sóknar­flokksins í Reykja­vík norður í komandi þing­kosningum í haust. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skipar fyrsta sæti listans. Þetta stað­festi Brynja við Vísi í kvöld en Frétta­blaðið greindi fyrst frá.

Brynja Dan hefur verið á­berandi á sam­fé­lags­miðlum og í þjóð­fé­laginu síðustu ár en hún kveðst sjálf alls ekki vilja kalla sig á­hrifa­vald.

„Flestir þekkja mig held ég sem stofnanda Extra­l­oppunnar, fyrir Leitina að upp­runanum og fyrir að vera enda­laust að rugga bátum,“ segir Brynja í sam­tali við Vísi en Brynja var við­fangs­efni fyrstu þátta þátta­seríunnar Leitin að upp­runanum árið 2016.

Brynja er ætt­leidd frá Sri Lanka og á 13 ára strák. Hún hefur setið í stjórn Barna­heilla í fjögur ár og tók ný­verið sæti í stjórn Ís­lenskrar ætt­leiðingar og vonar að eigin sögn að starf hennar þar leiði af sér já­kvæðar breytingar í ætt­leiðingar­málum á Ís­landi.

Reykjavík verið Framsókn erfið

Fram­sóknar­flokkurinn náði ekki inn manni á þing í kjör­dæminu í síðustu þing­kosningum en ráð­herrann Ás­mundur Einar á­kvað að færa sig úr Norðvesturkjördæmi og í borgina fyrir næstu kosningar.

Ás­mundur er sam­kvæmt nýjustu könnunum næst­vin­sælasti ráð­herra ríkis­stjórnarinnar á eftir for­sætis­ráð­herranum Katrínu Jakobs­dóttur og því ekki úr vegi að ætla að þetta út­spil flokksins skili inn betri kosningu en árið 2017 þegar lög­maðurinn Lárus Sigurður Lárus­son skipaði efsta sæti listans.

Lilja leiðir í suðri

Fréttablaðið greindi frá því í kvöld hverjir muni skipa efstu sæti lista flokksins í Reykjavík. Þar segir að Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands Eldri borgara, verði í forystu ásamt Brynju Dan og Ásmundi í Reykjavík norður.

Í Reykjavík suður mun Lilja Alfreðsdóttir aftur leiða lista Framsóknar. Hún var eini þingmaður flokksins sem komst inn á þing í Reykjavík í síðustu kosningum.

Ásamt Lilju munu þau Aðalsteinn Haukur Sverrisson, verkefnastjóri og formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, og Sigrún Elsa Smáradóttir, fyrrum borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og framkvæmdastjóri Exclusive Travels skipa efstu sætin í suðri.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×