Erlent

Leita enn að móður ung­barns sem fannst yfir­gefið í al­mennings­garði

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Talið er að drengurinn hafi aðeins verið nokkurra klukkustunda gamall þegar hann fannst í garðinum.
Talið er að drengurinn hafi aðeins verið nokkurra klukkustunda gamall þegar hann fannst í garðinum. Getty

Lögreglan í Birmingham á Englandi hefur birt myndir af ungbarninu sem fannst yfirgefið í almenningsgarði í borginni fyrir helgi. Það var almennur borgari sem var á göngu með hunda í Kings Norton almenningsgarðinum í Birmingham sem fann litla drenginn vafinn inn í teppi síðdegis þann 22. apríl.

Sjúkrahússtarfsfólk hefur nefnt drenginn George, en leit stendur enn yfir af móður drengsins að því er BBC greinir frá í gær. Talið er að drengurinn hafi aðeins verið nokkurra klukkustunda gamall þegar hann fannst í garðinum.

Að sögn lögreglu var drengurinn hraustur og leið vel á sjúkrahúsi en óttast var um afdrif móður hans og velferð hennar. Lögregla hefur biðlað til almennings um aðstoð og hvetur alla sem hafa upplýsingar um málið til að setja sig í samband við lögreglu.

Drengurinn var klæddur í gráar sokkabuxur og hvítan og appelsínugulan röndóttan bol með risaeðlumynd. Lögreglumaðurinn Neil Hunt, sem fer fyrir rannsókn málsins, beindi orðum sínum beint til móðurinnar í yfirlýsingu þar sem hann sagði hana ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að lenda í vandræðum.

„Þú ert það sem ég hef mestar áhyggjur af núna, við þurfum virkilega að ganga úr skugga um að það sé allt í lagi með þig,“ sagði Hunt. „Ég þekki ekki aðstæður hvað varðar fæðingu George, en sem foreldri sjálfur, þá veit ég hversu yfirþyrmandi það getur verið að vera foreldri.“

Líkt og áður segir hefur lögreglan birt myndir af drengnum ásamt fréttatilkynningu um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×