Fótbolti

Þetta eru stjörnurnar sem Ísland þarf að eiga við í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Timo Werner og Ilkay Gündogan fengu undanþágu frá ferðatakmörkunum, til að ferðast frá Bretlandi til Þýskalands í leikinn við Ísland.
Timo Werner og Ilkay Gündogan fengu undanþágu frá ferðatakmörkunum, til að ferðast frá Bretlandi til Þýskalands í leikinn við Ísland. Getty

Joachim Löw getur ef að líkum lætur stillt fram ógnarsterku byrjunarliði gegn Íslandi í kvöld þegar Þýskaland og Ísland hefja undankeppni HM í Katar, þangað sem bæði lið stefna.

Miðað við nýjustu upplýsingar fer leikurinn fram, þó að tveir leikmenn hafi í dag helst úr lestinni hjá Þjóðverjum. Jonas Hofmann greindist með kórónuveirusmit en hann hefði að öllum líkindum hvort sem er ekki verið í byrjunarliði Þjóðverja í kvöld.

Bakvörðurinn Marcel Halstenberg, sem nú hefur verið settur í sóttkví vegna smits Hofmanns, hefði aftur á móti líklega byrjað leikinn. 

Ef ekki verða frekari skakkaföll tengd smiti Hofmanns, vegna sóttkvíar eða fleiri smita, er líklegt byrjunarlið Þýskalands svona, samkvæmt þýskum miðlum:

Mögulegt byrjunarlið Þýskalands (4-3-3)

Markvörður: Manuel Neuer, 34 ára, Bayern, 96 landsleikir.

Hægri bakvörður: Lukas Klostermann, 24 ára, RB Leipzig, 10 landsleikir.

Miðvörður: Matthias Ginter, 27 ára, Gladbach, 35 landsleikir.

Miðvörður: Antonio Rüdiger, 28 ára, Chelsea, 37 landsleikir.

Vinstri bakvörður: Philipp Max, 27 ára, PSV, 3 landsleikir.

Miðjumaður: Joshua Kimmich, 26 ára, Bayern, 50 landsleikir.

Miðjumaður: Leon Goretzka, 26 ára, Bayern, 29 landsleikir.

Miðjumaður: Ilkay Gündogan, 30 ára, Man. City, 42 landsleikir.

Sóknarmaður: Leroy Sané, 25 ára, Bayern, 25 landsleikir.

Sóknarmaður: Timo Werner, 25 ára, Chelsea, 35 landsleikir.

Sóknarmaður: Serge Gnabry, 25 ára, Bayern, 17 landsleikir.

Fimm leikmenn úr Evrópumeistaraliði Bayern München eru í líklegu byrjunarliði Þýskalands í kvöld, og þar er einnig sá sem valinn hefur verið besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar síðustu tvo mánuði, Ilkay Gündogan úr Manchester City. Leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni fengu undanþágu frá sóttvarnareglum í Þýskalandi, til að taka þátt í leiknum.

Vilja svara fyrir sig eftir sex marka tap

Þýska landsliðið tapaði 6-0 gegn Spáni í síðasta landsleik sínum, í Þjóðadeildinni í nóvember, og ætlar að svara fyrir sig í kvöld. Leikmenn liðsins eru jafnframt að berjast fyrir sæti EM-hópnum í sumar þegar liðið leikur sína síðustu leiki undir stjórn Löws.

Þjóðverjar eru án Toni Kroos í kvöld en hann dró sig úr hópnum vegna meiðsla. Varnarmennirnir Niklas Süle og Robin Gosens verða ekki heldur með í kvöld, ekki frekar en Hofmann sem er miðjumaður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×