Sport

Vann mótið fár­veikur og fór á sjúkra­hús

Sindri Sverrisson skrifar
Andrey Rublev smellir kossi á verðlaunagripinn eftir sigurinn á Madrid Open.
Andrey Rublev smellir kossi á verðlaunagripinn eftir sigurinn á Madrid Open. Getty/Clive Brunskill

Rússinn Andrey Rublev varð svo að segja að fagna sigrinum á sjúkrahúsi eftir að hafa unnið Madrid Open mótið í tennis í gær, eftir að hafa glímt við veikindi í marga daga.

Rublev, sem er 26 ára, vann Felix Auger-Aliassime í tæplega þriggja klukkutíma löngum úrslitaleik í gær; 4-6, 7-5, 7-5, en tilkynnti svo eftir sigurinn að hann væri á leiðinni aftur á sjúkrahús.

Rublev hefur nefnilega verið að glíma við veikindi en talið er að hann sé með veirusýkingu. Þá þurfti hann deyfingu vegna mikilla verkja í fæti.

„Ég er enn veikur og á morgun fer ég aftur á sjúkrahúsið til að fá fulla skoðun og komast að því hvað nákvæmlega er í gangi,“ sagði Rublev á blaðamannafundi.

„Ég er búinn að vera lasinn í átta eða níu daga núna. Þetta er ekki eðlilegt og mér líður bara ekkert betur, sem er sérstakt því að venjulega er ég bara veikur í 2-3 daga í mesta lagi og fæ kannski hita, en ekkert meira en það. Mér hefur aldrei á ævinni liðið svona illa,“ sagði Rublev sem eins og fyrr segir var líka að drepast í fætinum.

„Þeir settu deyfingu í fingurinn fyrir fótinn því að einhvern veginn bólgnaði hann og varð stærri, og það setti þrýsting á beinið og ég get ekki einu sinni farið í skóinn minn. Þetta er svipað og ef að fóturinn hefði brotnað, svo ég fékk deyfingu og gat þá alla vega spilað án þess að hugsa um þetta,“ sagði Rublev.

Rublev kom inn í mótið sem sjöundi sterkasti keppandinn en hann vann meðal annars Spánverjann Carlos Alcaraz í átta manna úrslitum, 4-6, 6-3, 6-2. Alcaraz átti titil að verja eftir að hafa unnið mótið tvö ár í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×