Erlent

Sam­komu­lag um nýja bráða­birgða­stjórn veitir vonar­glætu

Atli Ísleifsson skrifar
Abd al-Hamid Dbaibah verður forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar.
Abd al-Hamid Dbaibah verður forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar. AP

Líbíuþing hefur samþykkt bráðabirgðastjórn sem ætlað er að stjórna hinu stríðshrjáða landi fram að fyrirhuguðum þingkosningum í desember næstkomandi. Litið er á málið sem mikilvægt skref í þá átt að binda endi á áratug af vopnuðum átökum og glundroða í landinu.

Abd al-Hamid Dbaibah verður forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, en meirihluti þingsins samþykkti nýja stjórn eftir tveggja daga umræður.

Samkomulagið náði fram að ganga eftir samningaferli með aðkomu Sameinuðu þjóðanna og eftir að stríðandi fylkingar náðu saman um vopnahlé í október síðastliðinn.

Átök hafa geisað um alla Líbíu frá því einræðisherranum Muammar Gaddafi var steypt af stóli árið 2011. Síðustu ár hefur þjóðfrelsisher Khalifas Haftars, sem berst fyrir fulltrúadeild líbíska þingsins sem var kjörin árið 2014, barist gegn alþjóðlega viðurkenndri ríkisstjórn landsins. Her Khalifa Haftars hefur notið stuðnings stjórnvalda í Rússlandi, Egyptalandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Stjórn Dbaibah, sem samanstendur af 33 ráðherrum og tveimur aðstoðarforsætisráðherrum, bíður ærið verkefni en líbískt samfélag er klofið eftir átök síðustu ára þar sem íbúar hafa skipt sér í fylkingar. Þá þarf ný stjórn jafnframt að tryggja um 20 þúsund málaliðahermenn sem hafa starfað í landinu síðustu ár haldi á brott.

Alls greiddu 132 þingmenn atkvæði með nýrri stjórn, en tveir greiddu atkvæði gegn. Þá sátu 36 hjá, en þingið kom saman í hafnarborginni Sirte.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×