Viðskipti innlent

Aldrei meira að gera á í­búða­markaði og aldrei minna fram­boð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aldrei hefur verið meira að gera á fasteignamarkaði en í janúar síðastliðnum sé litið til útgefinna kaupsamninga.
Aldrei hefur verið meira að gera á fasteignamarkaði en í janúar síðastliðnum sé litið til útgefinna kaupsamninga. Vísir/Vilhelm

Aldrei hefur verið meira að gera á fasteignamarkaði hér á landi en í janúar síðastliðnum og á sama tíma hefur framboð á íbúðum aldrei mælst minna á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um húsnæðismarkaðinn sem birt er í dag.

Í skýrslunni kemur fram að ef fjöldi útgefinna kaupsamninga sé skoðaður eftir mánuði hvers árs megi sjá að aldrei hafi verið jafn mikið að gera á íbúðamarkaði og í janúarmánuði.

„Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var metið bætt um 28% og annars staðar á landsbyggðinni var það bætt um tæp 10%,“ segir í skýrslunni.

Þá hefur dregið hratt úr framboði á markaðnum. Í skýrslunni kemur fram að mun fleiri íbúðir hafi verið seldar en hafi verið settar á sölu frá því í byrjun síðasta sumars. Því hafi dregið nokkuð skarpt úr framboði, það er fjölda íbúða til sölu. Þá hefur framboðið aldrei verið eins lítið af íbúðum til sölu:

„Nú í byrjun mars voru um 2.200 íbúðir til sölu þegar tekið hefur verið tillit til tvítalninga en í lok maí 2020 fór framboðið hæst í nær 4.000 íbúðir.

Mesta minnkun framboðs hefur verið á höfuðborgarsvæðinu þar sem það fór úr rúmlega 2.200 í um 940 íbúðir, en það hefur aldrei mælst minna eins langt og gögn hagdeildar ná.

Frá 1. febrúar hefur framboðið á höfuðborgarsvæðinu dregist saman um nær 13%. Einnig hefur dregið verulega úr framboði annars staðar á landinu, þótt samdrátturinn þar sé minni en á höfuðborgarsvæðinu.

Athygli vekur að framboðið hefur dregist sérstaklega mikið saman á nýjum íbúðum en á höfuðborgarsvæðinu eru nú um 74% færri slíkar íbúðir til sölu en voru í lok maí.

Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur þeim fækkað um 55%. Öðrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar farið fjölgandi það sem af er ári,“ segir í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem lesa má í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×