Juventus úr leik eftir fram­lengdan leik gegn Porto á heima­velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Porto fagna öðru marki sínu í kvöld.
Leikmenn Porto fagna öðru marki sínu í kvöld. The Guardian

Juventus er dottið úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir ótrúlegt 3-2 tap í framlengdum leik gegn Porto á heimavelli. Porto vann fyrri leik liðanna 2-1 og fer því áfram þökk sé fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Juventus var ef til vill meira með boltann en það kom engum á óvart sem hafði séð fyrri leik liðanna. Porto voru 2-1 yfir þökk sé ótrúlegum sigri í Portúgal og til að flækja málin enn frekar þá komust gestirnir yfir á Ítalíu.

Aðeins voru átján mínútur liðnar er Merih Demiral braut á Mehdi Taremi innan vítateigs og vítaspyrna var dæmd. Sérgio Oliveira tók spyrnuna og kom Porto 1-0 yfir. Þar með voru gestirnir komnir í 3-1 samanlagt og þurftu heimamenn því að skora þrívegis til að komast áfram. Það gekk ekki í fyrri hálfleik en er honum lauk var staðan enn 1-0 gestunum í vil.

Það tók Juventus ekki alagan tíma að jafna í síðari hálfleik. Cristiano Ronaldo fékk þá sendingu yfir vörn gestanna, hann lagði boltann fullkomlega fyrir Federico Chiesa sem smurði boltann upp í hornið fjær og staðan orðin 1-1 þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Federico Chiesa kom Juventus inn í einvígið með tveimur mörkum í kvöld.EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO

Ekki nóg með það heldur fékk Mehdi Taremi tvö gul spjöld með tveggja mínútna millibili skömmu síðar og þar með rautt. Hann fékk sum sé gult spjald fyrir að stöðva skyndisókn, svo þegar leikmenn Juventus reyndu að taka aukaspyrnuna snöggt þá þrumaði Taremi boltanum í burtu og fékk annað gult spjald.

Eftir þetta var aðeins eitt lið á vellinum. Títtnefndur Chiesa átti svo skot í stöng á 56. mínútu eftir að hann fékk langa sendingu inn fyrir vörn Porto og tókst að komast fram hjá Augustin Marchesin í marki Porto en Pepe – góðvinur Cristiano Ronaldo – tókst að stugga við Chisea svo skot hans fór í stöngina.

Chiesa bætti þó fyrir „mistökin“ skömmu síðar er hann stangaði stórkostlega fyrirgjöf Juan Cuadrado frá hægri í netið af stuttu færi. Staðan orðin 2-1 og leikurinn á leið í framlengingu ef ekki yrðu mörkin fleiri í venjulegum leiktíma.

Þó ótrúlegt megi virðast þá urðu þau ekki fleiri. Álvaro Morata kom knettinum hins vegar í netið í uppbótartíma með huggulegri afgreiðslu í stöng og inn. Því miður fyrir hann, og Juventus, var hann fyrir innan vörn Porto er sendingin kom og því um rangstöðu að ræða.

Skömmu síðar átti Cuadrado þrumuskot með vinstri fæti sem small í slánni. Nær komust heimamenn ekki og því þurfti að framlengja. Sú var ekki merkileg framan af, heimamenn fengu betri færi á meðan gestirnir sátu til baka og freistuðu þess að nýta eina af fáum skyndisóknum sínum.

Þegar það voru komnar 115 mínútur á klukkuna fengu gestirnir aukaspyrnu töluvert frá marki.  Sérgio Oliveira stillti boltanum upp og þrumaði að marki. Þeir leikmenn Juventus sem stóðu vaktina í veggnum fá ekki medalíu fyrir hugrekki en þeir hoppuðu svo gott sem frá skotinu sem fór í gegnum vegginn og í netið. 

Wojciech Szczęsny, markvörður Juventus, var í boltanum en það dugði ekki til og boltinn lak inn. Staðan 2-2 og allt í einu þurftu heimamenn tvö mörk til að fara áfram. Strax í næstu sókn fengu Juventus hornspyrnu sem  Federico Bernardeschi sendi beint á kollinn á Adrien Rabiot sem kom Juventus aftur yfir, 3-2.

Það dugði þó ekki til þar sem mörkin urðu ekki fleiri og Juventus úr leik eftir ótrúlegan leik.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira