Viðskipti innlent

Seðla­banka­stjóri sann­færður um að Ís­land komist bratt upp úr Co­vid-kreppunni

Jakob Bjarnar skrifar
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri Íslands er kátur, vitnar í Nóbelsskáldið Halldór Laxness: Bráðum kemur betri tíð, með blóm í haga.
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri Íslands er kátur, vitnar í Nóbelsskáldið Halldór Laxness: Bráðum kemur betri tíð, með blóm í haga. vísir/vilhelm

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri Íslands fagnar auknu trausti í mælingum sem farið hefur úr 31 prósenti 2019 í 62 prósent nú.

„Traust til Seðlabankans mælist nú 62% og hefur tekið stökk frá því í fyrra þegar 45% landsmanna sögðust treysta bankanum. Og heljastökk frá árinu 2019 þegar það mældist 31%. Allt samkvæmt könnunum Gallup,“ segir Ásgeir í stuttum pistli á Facebooksíðu sinni.

Hann segist, sem seðlabankastjóri er bæði auðmjúkur og glaður, við þessar fregnir.

„Þetta er árangur sem allt starfsfólk Seðlabankans á saman. Þessu trausti fylgir einnig mikil ábyrgð – að við getum staðist þær væntingar sem til okkar eru gerðar.

Traust til Seðlabankans mælist nú 62% og hefur tekið stökk frá því í fyrra þegar 45% landsmanna sögðust treysta...

Posted by Ásgeir Jónsson on Mánudagur, 22. febrúar 2021

Þau tímamót urðu í upphafi árs 2020 að ný lög tóku gildi með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins – og svo tveimur mánuðum síðar skall veirufaraldurinn á. Þannig að ég lít á þessa mælingu sem viðurkenningu á störfum hins nýja banka á þessum erfiða tíma.“

Ásgeir bendir á að Seðlabanki Íslands sé útgefandi og varðmaður íslensku krónunnar. Og mælingin því vitnisburður um nýtt traust á gjaldmiðlinum. Hann segist jafnframt bjartsýnn að eðlisfari og handviss um að Ísland komist bratt úr Covid-kreppunni. Seðlabankastjóri lýkur máli sínu á með tilvitnun í sjálft Nóbelsskáldið: 

„Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga - sæta langa sumardaga.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×