Handbolti

Grænhöfðaeyjar þurfa að gefa leikinn gegn Þjóðverjum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Allir sem mæta á HM í Egyptalandi, þar á meðal Alfreð Gíslason þjálfari Þjóðverja, eru hitamældir og fara svo í smitpróf vegna kórónuveirunnar.
Allir sem mæta á HM í Egyptalandi, þar á meðal Alfreð Gíslason þjálfari Þjóðverja, eru hitamældir og fara svo í smitpróf vegna kórónuveirunnar. Getty/Sascha Klahn

Þýskaland verður dæmdur 10-0 sigur á Grænhöfðaeyjum á HM í handbolta í dag þar sem þeir síðarnefndu ná ekki í lið.

Kórónuveiran hefur herjað á leikmannahóp Grænhöfðaeyja og er nú svo komið að þeir hafa aðeins níu leikmenn leikfæra fyrir fyrirhugaðan leik dagsins gegn lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi.

Reglurnar á HM í handbolta kveða á um að lið þurfi að hafa að lágmarki tíu leikmenn í leikmannahóp til að leikur geti farið fram.

Þrettán af 22 manna leikmannahóp Grænhöfðaeyja hafa verið greindir með smit.

Grænhöfðaeyjar eiga leik gegn Úrúgvæ á þriðjudag í lokaumferð riðilsins en þeir töpuðu með sjö marka mun fyrir Ungverjum í fyrstu  umferðinni.

Alþjóða handknattleikssambandið hefur ekki staðfest að leikurinn fari ekki fram en handknattleikssamband Grænhöfðaeyja hefur gefið út að liðið mæti ekki í leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×