Viðskipti innlent

22 milljarða samdráttur í veitingageiranum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Veitingamenn hafa þurft að sæta takmörkunum á sínum rekstri vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda auk þess sem mikil fækkun ferðamanna hefur haft mikil áhrif á tekjuöflun í geiranum.
Veitingamenn hafa þurft að sæta takmörkunum á sínum rekstri vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda auk þess sem mikil fækkun ferðamanna hefur haft mikil áhrif á tekjuöflun í geiranum. Vísir/Vilhelm

Kortavelta í veitingageiranum hefur dregist saman um 22 milljarða að raunvirði frá því í mars á þessu ári þar til í október sé miðað við veltuna á árinu 2019.

Þetta leiðir greining Samtaka atvinnulífsins (SA) í ljós en fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

Eins og þekkt er hefur kórónuveirufaraldurinn leikið veitingabransann grátt. Ferðamönnum hefur fækkað gríðarlega á árinu og þá hefur geirinn þurft að sæta takmörkunum varðandi fjölda viðskiptavina og opnunartíma í sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda.

Greining SA leiðir í ljós að kortavelta frá erlendum ferðamönnum hefur dregist saman um nær 19 milljarða á því tímabili sem greiningin nær til. Samdráttur í innlendri kortaveltu er því um þrír milljarðar.

Þá hafa þúsundir starfa í bransanum glatast þrátt fyrir ýmsar aðgerðir stjórnvalda sem ætlað er að vinna gegn auknu atvinnuleysi.

Ófyrirsjáanleiki ofan á mikið tekjutap

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, segir í samtali við Fréttablaðið að um þriðjungur tekna veitingageirans undanfarin ár hafi komið frá erlendum ferðamönnum.

Reksturinn sé því ansi háður þeim hópi viðskiptavina enda megi flokka veitingageirann sem hluta af ferðaþjónustunni.

Ofan á mikið tekjutap hafi veitingamenn síðan þurft að eiga við mikinn ófyrirsjáanleika í sínum rekstri að sögn Önnu Hrefnu.

„Ítrekað hafa verið gerðar breytingar á fyrirkomulagi sóttvarna innanlands með skömmum fyrirvara frá því faraldurinn hófst. Það hefur því reynst erfitt að halda utan um bókanir, aðfangakaup og starfsmannahald með þá óvissu sem er uppi um aðgerðir hverju sinni. Þetta kemur auðvitað niður á rekstrinum,“ segir Anna Hrefna.

Því hafi margir veitingamenn ekki getað annað en hætt rekstri á meðan aðrir hafi gripið til hagræðingaraðgerða sem fækkað hafi störfum í greininni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×