Erlent

Minnst 300 lagðir inn vegna dularfullra veikinda á Indlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Jagan Mohan Reddy, æðsti embættismaður Andrah Pradesh, heimsótt sjúklinga í Eluru.
Jagan Mohan Reddy, æðsti embættismaður Andrah Pradesh, heimsótt sjúklinga í Eluru. Vísir/EPA

Minnst einn hefur dáið og minnst 300 hafa verið lagðir inn á sjúkrahús vegna dularfullra veikinda sem herja á íbúa borgarinnar Eluru, í Andhra Pradesh á Indlandi. Einkenni þeirra sem hafa veikst eru margvísleg og hafa þar verið nefnd meðvitundarleysi, slög og ógleði.

Enginn þeirra sem voru lagðir inn á sjúkrahús um helgina greindist með Covid-19 og fundust engin ummerki veirusýkingar. CNN segir að um 180 hafi þegar verið útskrifaðir.

Sérstök teymi vísindamanna hafa verið send til borgarinnar til að reyna að finna uppruna veikindanna, samkvæmt frétt BBC. Verið er að kanna hvort rekja megi veikindin til mengunar í drykkjarvatni eða jafnvel í lofti. Einnig hefur verið kannað hvort veikindin megi rekja til matvæla.

Í frétt Times of India segir að grunurinn beinst nú sérstaklega að búnaði sem dreifi gufu sem eigi að halda aftur af moskítóflugum. Það hafi þó ekki verið staðfest. Vatnssýni hafi ekki sýnt neitt óeðlilegt. Það hafi blóðsýni, skannanir af heilum sjúkra og jafnvel sýni af mænuvökva ekki gert heldur.

Samkvæmt TOI segja sérfræðingar lang líklegast að um einhverskonar eitrun sé að ræða.

Flestir þeirra sem hafa veikst eru sagðir á aldrinum 20 til 30 ára en þar á meðal eru einnig tæplega 50 börn undir tólf ára aldri.

Indian Express hefur eftir starfsmanni á sjúkrahúsi í Eluru að margir sjúklingar hafi kvartað yfir sviða í augum. Sérstaklega börnin og þau hafi byrjað að æla eftir að hafa kvartað yfir sviðanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×