Fótbolti

Gazza ögraði óvart Maradona þegar þeir mættust kenndir

Sindri Sverrisson skrifar
Paul Gascoigne og Diego Maradona voru, ef marka má sögu Gascoigne, báðir búnir að fá sér í glas þegar þeir mættust á sínum tíma.
Paul Gascoigne og Diego Maradona voru, ef marka má sögu Gascoigne, báðir búnir að fá sér í glas þegar þeir mættust á sínum tíma. Getty/Claire Mackintosh

Paul Gascoigne er meðal þeirra sem rifjað hafa upp skemmtilegar sögur af Diego Maradona og minnst argentínska knattspyrnugoðsins eftir að Maradona lést í gær, sextugur að aldri.

Paul Gascoigne er meðal þeirra sem rifjað hafa upp skemmtilegar sögur af Diego Maradona og minnst argentínska knattspyrnugoðsins eftir að Maradona lést í gær, sextugur að aldri.

Báðir vöktu þeir Gascoigne og Maradona ekki bara athygli fyrir snilldartilþrif inni á knattspyrnuvellinum heldur skrautlegt líferni utan hans.

Gascoigne, sem lék 57 landsleiki fyrir England, mætti Maradona í leik árið 1993 þegar Maradona var leikmaður Sevilla en „Gazza“ lék með Lazio. Hann rifjaði upp samskipti þeirra sem gestur í þættinum Good Morning Britain í morgun:

„Í fluginu [á leiðinni í leikinn] fékk ég mér nokkra drykki. Í göngunum [á leið inn á völlinn] sneri ég mér að Diego og sagði; „Diego, ég er dálítið kenndur [e. tipsy]“. Og hann svaraði: „Það er í lagi Gazza, ég líka.“

Ég fór út á völlinn, fór framhjá fjórum leikmönnum og skoraði mark, horfði til hans og sagði: „Gerðu betur.“ Ég talaði auðvitað ítölsku því hann talar ekki ensku. Ég held að ég hafi sagt eitthvað rangt því að eftir þetta var hann ótrúlegur. Töfrandi. Þvílíkur leikmaður,“ sagði Gascoigne.

Maradona kom til Sevilla eftir árin mögnuðu með Napoli, og fimmtán mánaða bannið sem hann fékk eftir að hafa orðið uppvís að kókaínneyslu. Hann staldraði stutt við hjá spænska félaginu eða aðeins eitt tímabil. Þar með lauk árum hans í evrópskum fótbolta en Maradona lék svo með Newell‘s Old Boys í heimalandinu og lauk loks ferlinum með Boca Juniors árið 1997.


Tengdar fréttir

Krefst rannsóknar á láti Maradona

Matias Morla, lögmaður og vinur Diegos Maradona, lýsir þeirri heilbrigðisþjónustu sem Maradona naut sem glæpsamlegri vitleysu og krefst þess að lát hans verði rannsakað.

Diego Maradona er látinn

Argentínski knattspyrnukappinn Diego Armando Maradona er látinn sextugur að aldri. Maradona lést af völdum hjartaáfalls. Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×