Upp­gjör: Víkingur - KA 4-2 | Ekkert fær meistarana stöðvað

Sverrir Mar Smárason skrifar
Danijel Dejan Djuric var frábær í dag.
Danijel Dejan Djuric var frábær í dag. vísir/hulda margrét

Íslandsmeistarar Víkinga eru enn með fullt hús stiga á toppi Bestu deildar karla í fótbolta eftir 4-2 sigur á KA. 

Fyrri hálfleikur var nokkuð líflegur og skilaði fjórum mörkum. Það fyrsta kom á 7. mínútu og það gerðu gestirnir. Há sending frá Ásgeiri Sigurgeirssyni sem Sveinn Margeir tók niður og átti skot í varnarmann sem laumaði sér framhjá Ingvari í marki Víkinga.

Þetta var þó langt frá því að vera rothögg fyrir heimamenn því þeir settu bara í næsta gír og tóku yfir. Á 18. mínútu fengu Víkingar vítaspyrnu sem má alveg rökræða um. Ari Sigurpálsson féll þá í baráttu við Ingimar Stöle og dómari leiksins lengi að flauta. Tveimur mínútum síðar skoraði Daniel Djuric af öryggi úr vítaspyrnunni og leikurinn jafn.

Stuttu síðar vildi Sveinn Margeir fá víti en það var leyst á þann hátt að dómari leiksins gaf Hallgrími Jónassyni, þjálfara KA, einfaldlega gult spjald fyrir kjaft af hliðarlínunni.

Nikolaj Hansen kom Víkingi yfir á 36. mínútu eftir hornspyrnu frá Pablo Punyed. Nikolaj var gapandi frír eftir klaufagang í dekkningu KA.

Það var svo rétt fyrir hlé sem Aron Elís Þrándarson setti boltann snyrtilega í netið eftir sendingu frá Ara Sigurpálssyni og staðan í leikhléi því 3-1 heimamönnum í vil.

Það var kraftur í gestunum í upphafi síðari hálfleiks en eins og oft áður þá er það akkúrat þá sem Víkingar bæta við. Það gerðu þeir einmitt. Erlingur vann boltann á miðjunni og kom honum á Daniel Djuric sem skoraði með föstu skoti niðri í fjærhornið. Stuttu áður höfðu KA beðið um annað víti og mönnum var heitt í hamsi.

Elfar Árni átti skalla í stöngina á 70. mínútu en bætti svo um betur sex mínútum síðar þegar hann skallaði fyrirgjöf Ívars Arnar í netið og minnkaði muninn í 4-2.

Atvik leiksins

Klárlega vítið sem Víkingur fékk og jafnaði leikinn úr. Þetta virkaði allt svo soft eitthvað og það sem gerir þetta ósannfærandi er að dómarinn sem er í bestu stöðunni til að sjá þetta ætlaði ekki að dæma.

Stjörnur og skúrkar

Daniel Dejan Djuric, Pablo Punyed og Ari Sigurpálsson eru stjörnur leiksins í dag. Daniel með tvö mörk. Ari fiskar vítið og leggur upp á Aron Elís. Pablo lagði upp á Nikolaj og bjó til stöðuna í þriðja markinu.

Ég ætla líka að gefa Steinþóri Má, markverði KA, tilnefningu þar sem hann bjargaði því að tapið yrði ekki stærra fyrir KA.

Skúrkarnir koma frá gestunum. Mér fannst Hans Viktor ekki eiga sinn besta leik í dag og svo setur maður bara það miklar kröfur á Viðar Örn þegar hann fær mínútur. Hann kom ekki með neitt að borðinu á þeim 35 mínútum sem hann spilaði í dag. Elfar Árni kom inná á sama tíma og var miklu hættulegri.

Dómarinn

Gunnar Oddur er ungur dómari og hélt þessu nokkurn vegin í skefjum í dag. Hitinn var mikill og það voru fullt af atvikum sem er hægt að ræða aftur og aftur. KA hefðu getað fengið víti og mögulega of hart að gefa Víkingi víti. Gunnar missti þó aldrei stjórnina fannst mér.

Stemning og umgjörð

Flott umgjörð hér í Víkinni. Stemningin var fín hjá stuðningmönnum Víkings sem sungu allan leikinn.

Kollegi minn var ósáttur hérna í gær en í dag var allt uppá tíu. Fjölmiðlafulltrúinn hins vegar því miður Tottenham maður og var frekar niðri fyrir eftir daginn en sigur heimamanna kætti hann við.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira