Innlent

Segir van­trausts­yfir­lýsinguna lang­sótta

Kristín Ólafsdóttir og Birgir Olgeirsson skrifa
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðherra segir vantraustsyfirlýsingu Afstöðu, félags fanga langsótta. Hún segir að gripið hafi verið til ýmissa aðgerða til að koma til móts við fanga í kórónuveirufaraldrinum.

Afstaða lýsti yfir vantrausti á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og fangelsismálayfirvöld á sunnudag vegna viðbragða þeirra við faraldrinum í fangelsum landsins. Í tilkynningu frá Afstöðu kom fram að dómsmálaráðuneytið hefði hafnað tillögum félagsins um ívilnanir fyrir alla fanga vegna þungbærrar fangelsisvistar í faraldrinum.

Áslaug Arna segir í samtali við fréttastofu að alltaf sé verið að skoða hvað hægt sé að gera fyrir fanga, sem séu viðkvæmur hópur. Vernda þurfi fanga fyrir Covid-19 en einnig að haga því þannig að takmarka áfallið af völdum faraldursins.

„Við erum að grípa til ýmissa aðgerða og höfum gert, og horft til Norðurlanda í þeim efnum, þannig að þessi vantraustsyfirlýsingin er, já, langsótt,“ segir Áslaug.

Þannig hafi verið reynt að haga því þannig að bæði fjölskyldur og börn fanga geti komið í heimsókn í fangelsin þegar aðgerðir eru ekki eins harðar og nú. Auðvitað sé stefnt að því að fangar geti fengið fleiri heimsóknir þegar takmörkunum verður aflétt.

„Við höfum líka ítrekað að þau fái meiri aðgang að Skype þannig að þau geti haft samskipti við fjölskyldur sínar og börn í gegnum tölvubúnað á meðan þessum aðgerðum stendur,“ segir Áslaug Arna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×