Erlent

Ríkisstjórinn í Lagos segir engan hafa látist

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögreglumenn við störf í Lekki.
Lögreglumenn við störf í Lekki. AP/Sunday Alamba

Nígeríski herinn er sagður hafa myrt allt að tólf mótmælendur í borginni Lagos í gærkvöldi. Ríkisstjórinn í Lagos sagði þetta alrangt í morgun.

Breska ríkisútvarpið hafði eftir sjónarvottum að einkennisklæddir hermenn hefðu skotið á mótmælendur sem söfnuðust saman við tollahliðið að úthverfinu Lekki í gærkvöldi. Þá sást til hermanna girða fyrir svæðið áður en skotum var hleypt af.

Fólkið var saman komið til að mótmæla svokölluðu SARS-teymi nígerísku lögreglunnar, sem hafði það hlutverk að vinna gegn ránum en var sagt spillt og standa að aftökum án dóms og laga. Teyminu hefur verið harðlega mótmælt undanfarnar tvær vikur og lagði Muhammadu Buhari forseti það niður fyrr í mánuðinum.

Nígeríska dagblaðið Premium Times hafði eftir heimildarmönnum að um tólf hefðu verið skotin til bana. Amnesty International í Nígeríu sagði svo á Twitter að samtökin hefðu undir höndum sönnunargögn fyrir því að mótmælendur hefðu verið skotnir til bana á svæðinu.

Nígeríski herinn hafnar þessu og sagði á Twitter að um falsfréttir væri að ræða. Babajide Sanwo-Olu, ríkisstjóri í Lagos, sagði að 25 hefðu særst en enginn látist.

Bandaríkjamenn hafa lokað ræðisskrifstofu sinni í Lagos tímabundið vegna upplausnarástandsins sem sagt er ríkja og Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata í Bandaríkjunum, kallaði eftir því að Buhari hætti að beita hernum gegn mótmælendum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×