Körfubolti

LeBron James strunsaði af velli áður en leiktíminn rann út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James var orðinn verulega pirraður undir lok leiks.
LeBron James var orðinn verulega pirraður undir lok leiks. Getty/Kevin C. Cox

LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers töpuðu á móti vængbrotnu liði Miami Heat í síðasta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um titilinn og Miami Heat getur því jafnað einvígið í kvöld.

Lakers gat komist í 3-0 í einvíginu og nánast tryggt sér titilinn. Miami Heat lék líka án tveggja byrjunarliðsmanna og var búið að tapa sannfærandi í fyrstu tveimur leikjunum.

Los Angeles Lakers liðið leit ekki vel út í þessum leik og átti ekki svar við grimmum og baráttuglöðum Miami Heat mönnum. Miami Heat komst í 22-9 í fyrsta leikhlutanum og vann leikinn á edanum 115-104.

Lykilatriðið var auðvitað frammistaða Jimmy Butler sem var með 40 stiga þrefalda tvennu með 40 stig, 11 fráköst og 13 stoðsendingar. Þetta var í fyrsta sinn í leik í lokaúrslitunum þar sem einn og sami leikmaður var með fleiri stig, fleiri fráköst og fleiri stoðsendingar en LeBron James.

LeBron James endaði leikinn með 25 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar en var líka með 8 tapað bolta.

LeBron James var orðinn mjög pirraður í lokin sem sást að því að hann strunsaði af velli áður en leiktíminn rann út. Það varð til þess að dómarar þurftu að stoppa leikinn og Lakers varð að skipta honum af velli þegar 0,7 sekúndur voru eftir.

Framganga LeBron James minnti vissulega aðeins á framkomu Isiah Thomas og slæmu strákanna í Detroit Pistons í frægum leik á móti Chicago Bulls í úrslitakeppninni árið 1991. Sú uppákoma átti örugglega þátt í því að Isiah Thomas var skilinn út undan þegar draumaliðið var valið fyrir Ólympíuleikanna í Barcelona 1992.

Hér fyrir neðan má sjá LeBron James ganga af velli áður en leiktíminn rann út.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×