Körfubolti

„Var í þrjú ár að keppa við þá bestu i heimi á öðrum fætinum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isaiah Thomas í leik með Boston Celtics þar sem ferill hans náði hæstum hæðum.
Isaiah Thomas í leik með Boston Celtics þar sem ferill hans náði hæstum hæðum. Getty/Maddie Meyer

Bandaríski bakvörðurinn Isaiah Thomas segist vera búinn að ná sér að fullu eftir mjaðmaraðgerð og hann sé nú tilbúinn að láta aftur af sér kveða í NBA-deildinni.

Isaiah Thomas sló í gegn með Boston Celtics fyrir nokkrum árum. Hann skoraði meðal annars 22,2 stig og gaf 6,2 stoðsendingar í leik á fyrsta heila tímabilinu og meðaltöl hans á 2016-17 tímabilinu með Boston voru 28,9 stig og 5,9 stoðsendingar í leik.

Meiðsli settu aftur á móti mikinn svip á síðustu ár sem endaði með því að Los Angeles Clippers sendi hann til Washington Wizards sem svo losuðu sig við hann. Áður hafði hann spilað hjá Cleveland, Los Angeles Lakers og Denver.

Síðustu ár hafa verið sársaukafull og svekkjandi fyrir Isaiah Thomas sem var nánast gleymdur og grafinn þrátt fyrir að vera nýbúinn að halda upp á 31 árs afmælið sitt.

Nú er aftur á móti breyttir tímar fyrir þennan skemmtilega bakvörð og Isaiah Thomas vill komast aftur í NBA-deildina.

„Þetta er eins og dagur og nótt fyrir mig,“ sagði Isaiah Thomas í viðtali við ESPN en hann fór í aðgerðina fyrir fimm mánuðum síðan.

„Ég er laus við sársaukann og hef nú aftur fulla hreyfigetu. Í þrjú ár þá var ég að keppa við þá bestu í heimi á öðrum fætinum. Krakkarnir mínir þurftu þá að hjálpa mér að komast í sokkana á morgnanna,“ sagði Thomas.

„Núna get ég lyft og ég fer alveg niður í hnébeygjunni. Ég get æft tvisvar á dag. Mér líður eins og ég sé aftur 31 árs gamall,“ sagði Isaiah Thomas.

Það verður fróðlegt að sjá hvort eitthvað NBA lið sé nú tilbúið að veðja á hann.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×