Innlent

Riða í Skagafirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þetta sauðfé úr Skútustaðahreppi og því ekki það sýkta.
Þetta sauðfé úr Skútustaðahreppi og því ekki það sýkta. Vísir/vilhelm

Matvælastofnun undirbýr nú aðgerðir eftir að hafa staðfest riðuveiki á bænum Grófargili við Varmahlíð í Skagafirði. Er þetta fyrsta tilfellið sem greinist í ár en í fyrra greindist jafnframt eitt tilfelli, þá á bænum Álftagerði skammt frá Grófargili.

Í tilkynningu MAST segir að bóndinn á bænum hafi sjálfur sett sig í samband við stofnunina þegar kind fór að sýna einkenni riðuveiki. „Kindin var skoðuð, síðan aflífuð og sýni tekin og send á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum þar sem riðuveiki var staðfest,“ segir í tilkynningunni.

Þar er þess jafnframt getið að undanfarna tvo ártugi hafi komið upp riðuveiki á tuttugu búum í hinu svokallaða Húna- og Skagahólfi, þar sem Grófargil er jafnframt að finna. Um þekkt riðusvæði er að ræða að sögn Matvælastofnunnar og í því samhengi bent á að árið 2016 greindist riða á bænum Brautarholti sem er næsti bær við Grófargil.

Þrátt fyrir þessa vendingar segir Matvælastofnun að riða sé á undanhaldi, þannig hafi aðeins komið upp eitt tilfelli í fyrra. Verið sé að teikna upp aðgerðir vegna riðunnar í Skagafirði.

„Héraðsdýralæknir vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og úttektar á búinu til að meta umfang aðgerða við förgun fjár, þrif og sótthreinsun. Því næst fer málið í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskurð,“ segir ennfremur í tilkynningu MAST.

Staðfestum riðutifellum hefur fækkað undanfarin ár.mast



Fleiri fréttir

Sjá meira


×