Erlent

Þúsundir syrgja Soleimani: „Dauði yfir Ameríku“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Palestínumenn sjást hér brenna ísraelska og bandaríska fána á minningarathöfn um Soleimani á Gaza.
Palestínumenn sjást hér brenna ísraelska og bandaríska fána á minningarathöfn um Soleimani á Gaza. Vísir/AP

Þúsundir vopnaðra skæruliða og óbreyttra borgara syrgðu íranska hershöfðingjann Quassem Soleimani í dag. Líkkista hershöfðingjans var flutt um götur Bagdad, höfuðborgar Írak, í dag. Líkamsleifum hans verður í kjölfarið komið til heimalands hans, Írans.

Soleimani var háttsettur innan íranska byltingarvarðarins, en Bandaríkin réðu hann af dögum í drónaárás á flugvöll í Bagdad, aðfaranótt föstudags. Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði árásina.

Þúsundir manna voru saman komnar í Bagdad í dag til þess að minnast Soleimani, en hann var af mörgum Írönum álitinn þjóðhetja. Tár mátti sjá á hvarmi margra viðstaddra þegar þau marseruðu um borgina. Þá mátti heyra fólk kyrja hluti á borð við „Dauði yfir Ameríku, dauði yfir Ísrael,“ og „Nei, nei Ameríka.“

Minningarathafnir um Soleimani voru haldnar víðar en í Bagdad, en fólk safnaðist einnig saman á Gaza-svæðinu í Palestínu og víða í Íran.

Þyrlur sveimuðu yfir svæðinu þar sem gangan í Bagdad fór fram, en meðal þeirra sem mættu voru Adil Abdul-Mahdi, forsætisráðherra Íraks, og háttsettir yfirmenn innan hersveita sem studdar eru af írönskum stjórnvöldum.

Stjórnvöld í Írak, sem er einn helsti bandamaður Írana, fordæmdu árásina og sögðu hana vega að fullveldi landsins. Þingið í Írak kemur nú saman á sérstökum neyðarþingfundi og ríkisstjórn landsins er nú undir miklum þrýstingi um að vísa frá þeim 5200 bandarísku hermönnum sem í landinu dvelja. Þeir eru staðsettir í landinu til þess að varna því að hryðjuverkasamtök sem kenna sig við íslamskt ríki, ISIS, nái aftur fótfestu í landinu.

Bandarísk stjórnvöld hafa þá mælst til þess að allir bandarískir ríkisborgarar í Írak yfirgefi landið sem allra fyrst, auk þess sem bandaríska sendiráðinu í Bagdad hefur verið lokað. Eins hafa bresk og frönsk yfirvöld varað ríkisborgara sína við því að ferðast til Íraks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×