Sport

Gengur um með tönnina hans Floyd Mayweather um hálsinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tönnin og svo mynd frá bardaga þeirra Floyd Mayweather Jr. og Marcos Maidana frá árinu 2014.
Tönnin og svo mynd frá bardaga þeirra Floyd Mayweather Jr. og Marcos Maidana frá árinu 2014. Samsett mynd/Instgram&Getty/Ethan Miller

Bandaríski hnefaleikamaðurinn Floyd Mayweather Jr. lagði boxhanskana á hilluna árið 2015 án þess að hafa tapað í hringnum og vann meðal annars alla 26 titilbardaga sína. Mayweather er því margfaldur heimsmeistari í sínum þyngdarflokki og bardagatölfræðin hans er 50-0.

Floyd Mayweather vann sér líka inn gríðarlega mikinn pening á þessum sigursæla ferli hans og hann hefur líka verið óhræddur við að monta sig af tekjunum.

Eitthvað af þessum peningum hefur þó farið í það að endurnýja eina af tönnunum hans ef marka má orð hnefaleikamannsins Marcos Maidana.

Marcos Maidana vann nefnilega smá sigur í tapinu á móti Floyd Mayweather í hringnum fyrir sex árum síðan. Maidana sagði stoltur frá „minningargrip“ sínum frá bardaganum.

Marcos Maidana er 37 ára Argentínumaður sem náði á sínum tíma að verða heimsmeistari í tveimur þyngdarflokkum. Hann mætti Floyd Mayweather tvisvar sinnum en tapaði í bæði skiptin.

Kapparnir börðust í seinna skiptið í MGM Grand Arena í Las Vegas árið 2014. Floyd Mayweather náði að rota Maidana í hvorugt skiptið en vann báða bardagana á stigum.

Maidana náði einum góðum króki í þriðju lotunni og það var ekki annað að sjá á endursýningunum en að Mayweather hafi þar misst eina tönn.

Það fór ekki framhjá Marcos Maidana sem fann tönnina eftir bardagann og gengur nú með hana um hálsinn. Hann sagði frá þessu á Instagram síðu sinni eins og sjá má hér fyrir neðan.

Það fylgir sögunni að Floyd Mayweather hafi neitað því eftir bardagann að hafa misst tönn við höggið og sagði líka að það hefði komið eftir að bjallan gall.

„Nei hann sló ekki út neina tönn hjá mér. Alls ekki. Hann er sterkur strákur með góð högg en það er ekkert til í því að það vanti í mig eina tönn,“ var haft eftir Floyd Mayweather eftir bardagann.

Marcos Maidana heldur aftur á móti öðru fram.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×