Erlent

Í­halds­flokkur Vucic með yfir­burða­sigur í Serbíu

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn fimmtugi Aleksandar Vučić tók við embætti forseta Serbíu árið 2017. Hann gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 2014 til 2017.
Hinn fimmtugi Aleksandar Vučić tók við embætti forseta Serbíu árið 2017. Hann gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 2014 til 2017. EPA

Stjórnarflokkur Aleksandar Vučić Serbíuforseta virðist hafa unnið yfirburðasigur í serbnesku þingkosningunum sem fram fóru í gær.

Útgönguspár Ipsos og CeSID benda til að Framfaraflokkur Serbíu (SNS) hafi hlotið rúmlega 62 prósent atkvæða, en Sósíalistaflokkurinn, sem hefur átt aðild að fráfarandi ríkisstjórn, hafi hlotið næstflest atkvæði, tæplega 11 prósent.

Serbneska föðurlandsbandalagið, með sundknattleiksmanninn Aleksandar Sapic í broddi fylkingar, var þriðji með um fjögur prósent atkvæða.

Svo virðist sem að kosningaþátttaka hafi verið minni en í síðustu þingkosningum, eða 48 prósent, samanborið við 56,7 prósent árið 2016.

Sumir stjórnarandstöðuflokkar sniðgengu kosningarnar og sögðu þær ekki frjálsar, meðal annars vegna óeðlilegra áhrifa og afskipta Vučić forseta af fjölmiðlum landsins.

Hinn fimmtugi Vučić tók við embætti forseta Serbíu árið 2017. Hann gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 2014 til 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×