Innlent

Fann fyrir jarð­skjálfta af stærð 5,6 á Sauð­ár­króki

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið noraustan af Siglufirði síðasta sólarhringinn.
Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið noraustan af Siglufirði síðasta sólarhringinn. Veðurstofa Ísland

Skjálfti af stærðinni 5,6 reið yfir norðaustur af Siglufirði klukkan 15:05 í dag. Mikil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu síðasta sólarhringinn og hafa um 200 skjálftar riðið yfir á svæðinu frá miðnætti.

Á annan tug eftirskjálfta hafa fylgt þeim stærsta og var stærð þeirra á bilinu 1,7 upp í 3,7. Vakthafandi jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að tilkynningar hafi borist allt frá Húsavík vestur að Sauðárkróki.

Íbúi á Sauðárkróki segir í samtali við fréttastofu Vísis að allt hafi skolfið þegar skjálfti reið yfir rétt eftir klukkan 15 í dag. Íbúar á Svalbarðseyri hafa einnig tilkynnt um að hafa fundið fyrir skjálftanum og segir einn þeirra í samtali við fréttastofu að munir hafi hrunið í gólfið og brotnað þegar skjálftinn reið yfir.

Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið á Tjörnesbrotabeltinu, um 20 km norðaustur af Siglufirði, undanfarinn sólarhring og hafa meira en 450 jarðskjálftar mælst þar frá því á hádegi í gær.

Fréttin var uppfærð klukkan 15:40.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×