Viðskipti innlent

WOW air ræður framkvæmdastjóra Rússlandsflugs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Michelle Ballarin
Michelle Ballarin Vísir/Baldur Hrafnkell Jónsson

Michele Ballarin, stjórnarformaður nýja WOW air, segir flugfélagið hafa ráðið til sín Dmitry Kaparulin. Hans hlutverk verði að leiða starfsemi WOW í Rússlandi og samveldi sjálfstæðra ríkja (SSR) sem varð til eftir upplausn Sovétríkjanna.

Á LinkedIn-síðu sinni, sem VB rak fyrst augun í, segir Ballarin að Kaparulin þessi hafi 22 ára reynslu úr flugrekstri. Hann hafi gegnt yfirmannsstöðu hjá Alitalia, SAS, Air Astania og AirBridgeCargo, ásamt því að hafa starfað fyrir Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA.

„Við hlökkum til að bjóða farþegum okkar upp á upplifunina sem fellst í því að fljúga með WOW World til Rússlands og SRS,“ skrifar Ballarin. „Við erum WOW!“

Af þessu að dæma má ætla að WOW ætli sér að vera með starfsemi í Rússlandi ef og þegar félaginu verður ýtt úr vör. Félagið hefur áður ráðið Giuseppe Cataldo til að fara fyrir starsemi félagsins á Ítalíu. Þá var Facebook-síða WOW air endurræst í febrúar, sem almannatengill félagsins sagði að væri til marks um „ákveðið lífsmark með undirbúningsferlinu.“ Að sama skapi hefur nýrri heimasíðu flugfélagsins verið ýtt úr vör.

Jómfrúarflugi WOW hefur verið reglulega frestað á síðustu mánuðum en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að fyrsta flug félagsins yrði í október á síðasta ári. Síðan þá hafa talsmenn félagsins sagt að í upphafi verið lögð áhersla á fraktflug en að tekið verði á móti farþegum þegar fram líða stundir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×