Innlent

Lyfja­af­greiðsla komin í samt horf eftir lang­varandi truflanir

Eiður Þór Árnason skrifar
Ekki var hægt að afgreiða rafræna lyfseðla í apótekum á tímabili í dag.
Ekki var hægt að afgreiða rafræna lyfseðla í apótekum á tímabili í dag. Fréttablaðið/Anton Brink
Eðlileg virkni er nú komin á lyfjagátt, Heilsuveru og Heklu-heilbrigðisnet en alvarleg röskun varð á þessum kerfum um klukkan 13 í dag og lágu þau niðri fram á kvöld.

Vegna bilunarinnar var ekki hægt að senda rafræna lyfseðla eða afgreiða lyf í apótekum. Einnig kom þetta í veg fyrir öll rafræn samskipti milli sjúklinga og þeirra aðila sem veita heilbrigðisþjónustu.

Sjá einnig: Landsmenn geta ekki leyst út lyfin sín

Fram kemur í tilkynningu frá Embætti landlæknis að engar rafrænar upplýsingar hafi glatast á meðan kerfin lágu niðri. Við taki greining á orsök vandans í því skyni að fyrirbyggja að slíkt geti komið fyrir aftur. Biðst embættið um leið afsökunar á þeim óþægindum sem bilunin olli í dag.

Heilsuvera lá lengi niðri í dag.heilsuvera.is
Um var að ræða alvarlega röskun á virkni kerfanna og var meðal annars ekki hægt að afgreiða vottorð, beiðnir eða læknabréf á meðan þau lágu niðri í dag. Ekki var heldur aðgengi að sjúkraskrám á milli aðila.

Fram kemur í tilkynningunni að þjónustuaðilarnir Advania og Origo hýsi og þjónusti kerfið sem sé í eigu landlæknisembættisins. Umrædd fyrirtæki muni nú kappkosta við að komast að rót vandans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×