Erlent

Lögmaður Trump „vasahringdi“ í fréttamann

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandarískir fjölmiðlar eigna afturenda Giuliani talhólfsskilaboð sem hann sendi fréttamanni NBC.
Bandarískir fjölmiðlar eigna afturenda Giuliani talhólfsskilaboð sem hann sendi fréttamanni NBC. AP/Charles Krupa
Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, skildi óvart eftir tvenn skilaboð í síma fréttamanns þar sem hann heyrist ræða um peningaþörf og árásir á Joe Biden. Giuliani er í miðpunkti rannsóknar á mögulegum embættisbrotum Trump og mögulega sakamálarannsókn á honum sjálfum.

Rich Shapiro, fréttamaður NBC-sjónvarpsstöðvarinnar, segir að hann hafi fengið tvenn talhólfsskilaboð frá Giuliani á einum mánuði. Þau hafi að líkindum verið svonefndar „vasahringingar“ (e. Butt dial) þar sem viðkomandi hringir óvart í númer þegar sími opnast í vasa. Shapiro hafði rætt við Giuliani í síma daginn áður en hann fékk fyrri hringinguna.

Í skilaboðunum heyrðist Giuliani fjargviðrast yfir Biden, fyrrverandi varaforseta og mögulegum forsetaframbjóðanda demókrata. Giuliani og Trump eru nú til rannsóknar vegna þrýstingsherferðar þeirra til að fá úkraínsk stjórnvöld til að rannsaka Biden.

„Biden er búinn að vera að græða á opinberu embætti sínu síðan hann var öldungadeildarþingmaður,“ heyrist Giuliani segja við óþekktan mann. Nefndi hann einnig stoðlausa ásökun þeirra Trump um að Biden hafi fengið úkraínskan saksóknara rekinn til að vernda son sinn Hunter sem sat í stjórn úkraínsks olíufyrirtækis.

„Hann gerði það sama í Kína og hann reyndi að gera það í Kasakstan og Rússlandi,“ heyrðist Giuliani segja, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Í seinni talhólfsskilaboðunum til Shapiro voru það hins vegar peningar sem voru Giuliani efstir í huga.

„Við þurfum nokkur hundruð þúsund dollara,“ heyrðist Giuliani segja þar. Barein kom einnig til tals í skilaboðum.

Nokkrir samverkamenn Giuliani í þrýstingsherferðinni í Úkraínu voru handteknir á dögunum, meðal annars grunaðir um peningaþvætti. Fréttir herma einnig að Giuliani sjálfur gæti verið til sakamálarannsóknar.


Tengdar fréttir

Segir Trump hafa ýtt á eftir því að henni yrði vikið úr starfi sendiherra í Úkraínu

Donald Trump Bandaríkjaforseti þrýsti á Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að víkja sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu úr embætti sínu. Frá þessu greindi fyrrverandi sendiherrann Marie Yovanovitch í yfirheyrslum vegna rannsóknar Bandaríkjaþings á meintum brotum Trump í starfi er viðkoma Úkraínu-skandalnum sem tröllríður pólítískri umræðu vestanhafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×