Sport

Fyrstur til að hlaupa maraþon á undir tveimur tímum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Eliud Kipchoge
Eliud Kipchoge vísir/getty
Keníumaðurinn Eliud Kipchoge skráði sig enn einu sinni á spjöld sögunnar í morgun þegar hann varð fyrsti maðurinn til að hlaupa heilt maraþon á innan við tveimur klukkustundum.

Hann hóf hlaupið klukkan 06:15 að íslenskum tíma í morgun og kom í mark á einni klukkustund, 59 mínútum og 40 sekúndum. Hlaupið var í Vín í Austurríki.

Tíminn verður þó ekki skráður sem opinbert heimsmet þar sem ekki var um hefðbundið maraþon að ræða en búin var til sérstök hlaupaleið í Vín þar sem brautin var að mestu leyti bein. Kipchoge er sjálfur handhafi heimsmetsins í maraþonhlaupi auk þess að vera ríkjandi Ólympíumeistari.

Heimsmetið er tvær klukkustundir, ein mínúta og 39 sekúndur; sett í Berlínarmaraþoninu 2018.

Þetta var í annað sinn sem Kipchoge gerði sérstaka tilraun til að rjúfa tveggja klukkustunda múrinn en honum mistókst í Monza á Ítalíu árið 2017 þegar hann hljóp á tveimur klukkustundum og 25 sekúndum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×