Erlent

Viðræður í Venesúela runnar út í sandinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Juan Guaidó, forseti venesúelska þingsins.
Juan Guaidó, forseti venesúelska þingsins. Vísir/EPA
Stjórnarandstaðan í Venesúela segir að málamiðlunarviðræður sem Norðmenn áttu milligöngu um séu endanlega runnar út í sandinn, sex vikum eftir að ríkisstjórn Nicolasar Maduro forseta sagði sig frá þeim. Norsk stjórnvöld segjast engu að síður enn reiðubúin til aðstoðar.

Viðræðurnar hófust á Barbados í kjölfar misheppnaðrar uppreisnar hersins sem Juan Guaidó, forseti þingsins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, fór fyrir í apríl. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar sögðu sig frá viðræðunum í ágúst til að mótmæla hertum refsiaðgerðum Bandaríkjastjórnar.

„Einræðisstjórn Nicolasar Maduro yfirgaf samningaviðræðurnar með fölskum afsökunum. Eftir meira en fjörutíu daga þar sem þeir hafa neitað að taka upp þráðinn staðfestum við að Barbados-leiðin er á enda runnin,“ sagði í yfirlýsingu frá skrifstofu Guaidó í gær.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Degi Nylander, forstöðumanni friðar- og sáttatilrauna hjá norska utanríkisráðuneytinu, að norsk stjórnvöld séu enn tilbúin að miðla málum í Venesúela telji fylkingarnar það nytsamlegt.

Maduro er sakaður um meiriháttar mannréttindabrot en undir stjórn hans hefur Venesúela ratað í efnahagslegar ógöngur. Áætlað er að um milljón íbúa Venesúela hafi flúið vegna ástandsins þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×