Innlent

Breyta fyrirkomulagi eftir langa röð á fyrri tónleikana

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Löng röð inn á tónleikasvæðið myndaðist í gærkvöldi.
Löng röð inn á tónleikasvæðið myndaðist í gærkvöldi. Vísir/Hrund
Skipulagi á röðinni inn á tónleika Eds Sheeran á Laugardalsvelli í gærkvöldi var breytt þegar ljóst var orðið að röðin inn á standandi svæði vallarins gengi of hægt fyrir sig.

„Þegar allir voru sammála um breytingar sem hefðu ekki áhrif á öryggi gesta var ráðist í að framkvæma þær.  Það olli einnig nokkrum vandræðum að rafmagn fór af tímabundið á því svæði þar sem innskönnun fór fram fyrir þetta svæði,“ segir í tilkynningu frá Senu Live, sem fór með skipulagningu tónleikanna.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að tekist hafi að leysa vandamálið sem upp kom og að röðin hafi verið búin um hálftíma áður en Sheeran steig á stokk.

„Við biðjumst afsökunar á þeim óþægindum sem þessi tímabundnu vandamál ollu en að öðru leyti fóru tónleikarnir vel fram og voru gestir til fyrirmyndar.

Hið nýja skipulag við innhleypingar verður notað fyrir tónleikana í kvöld,“ segir í tilkynningunni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×