Innlent

Gjaldskylda yfir nýja Ölfusárbrú

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Svona gæti nyja brúin yfir Ölfusá litið út.
Svona gæti nyja brúin yfir Ölfusá litið út.

Ráðgert er að ný brú yfir Ölfusá verði samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila, í anda Hvalfjarðarganga. Því má vænta þess að það verði gjaldskylda við brúnna. Frá þessu greindi Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.



Greint hefur verið frá því að ný brú yfir Ölfusá verði stagbrú með sextíu metra háum turni. Áætlað er að hún muni létta á umferð á núverandi brú sem er orðinn rúmlega 70 ára gömul og farin að láta á sjá. 



Í samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033 fellur framkvæmdin inn í „annað tímabilið,“ sem er frá árinu 2024 til 2028. Áætlaður kostnaður er um 5,5 milljarðar króna.



Sigurður Ingi segir stjórnvöld nú leita leiða til að greiða fyrir margvíslegum samgöngubótum, en uppsöfnð fjárfestingaþörf í samgönguinnviðum er talin nema um 160 milljörðum króna. Fyrrnefnd samvinnuleið og gjaldtaka á stofnbrautum, vegtollar, séu meðal þeirra aðgerða sem litið sé til.



Sjá einnig: Bæjarstjórar fagna „leið út úr óboðlegu ástandi“

Ráðherrann segir að fyrirhugað sé að frumvarp sem „heimili þessa hluti“ verði lagt fyrir Alþingi í haust, eftir að hafa verið í Samráðsgátt stjórnvalda undanfarna mánuði.



Sigurður Ingi segir aukinheldur að nú sé rétti tíminn til að ráðast í innviðauppbyggingu. Sjaldan hafi verið hagstæðara að taka lán til að fjármagna framkvæmdirnar, auk þess sem farið er að hægja á í hagkerfinu og því kjörið að „auka framkvæmdastigið í landinu,“ eins og Sigurður kemst að orði.



Samtök Atvinnulífsins birtu í gær ákall til stjórnvalda sem rímar við ummæli ráðherrans. Þar hvetja samtökin til þess að fleiri innviðafjárfestingar verði samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila. Þrátt fyrir að stjórnvöld hyggist verja auknum fjármunum til samgönguframkvæmda á komandi árum dugi það skammt til að mæta uppsafnaðri áætlaðri þörf.



„Reynsla Íslands af byggingu Hvalfjarðarganga og reynsla annarra þjóða af sambærilegum verkefnum sýnir að kostir samvinnuverkefna eru ótvíræðir,“ segir á vef SA.


Tengdar fréttir

Ný brú yfir Ölfusá fyrir fimm milljarða

Ný brú yfir Ölfusá verður stagbrú með sextíu metra háum turni. Brúin mun létta á umferð á núverandi brú sem er orðinn rúmlega 70 ára gömul og farin að láta á sjá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×