Erlent

Kim sagður hafa tekið samningamann sinn af lífi

Kjartan Kjartansson skrifar
Kim Hyok Chol stýrði viðræðum við Bandaríkin. Hann er sagður hafa verið sendur í þrælkunarbúðir og tekinn af lífi.
Kim Hyok Chol stýrði viðræðum við Bandaríkin. Hann er sagður hafa verið sendur í þrælkunarbúðir og tekinn af lífi. Vísir/EPA
Stærsta dagblað Suður-Kóreu fullyrðir að Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafi látið taka yfirmann samninganefndar sinnar við Bandaríkjastjórn af lífi. Ástæðan sé misheppnaður leiðtogafundur Kim og Donalds Trump Bandaríkjaforseta í febrúar.

Að sögn dagblaðsins Chosun Ilbo var Kim Hyok Chol tekinn af lífi ásamt fjórum öðrum embættismönnum utanríkisráðuneytisins á Mirim-flugvelli í Pjongjang í mars. Þeir hafi allir verið sakaðir um njósnir í þágu Bandaríkjanna.

Reuters-fréttastofan segir að hún hafi ekki getað staðfest frétt blaðsins. Áður hafa norður-kóreskir embættismenn skotið aftur upp kollinum í nýjum embættum eftir að þeir voru sagðir hafa verið teknir af lífi.

Fundur Kim og Trump í Hanoi í Víetnam fór út um þúfur en ríkin tvö greindi á um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu. Kim Yong Chol, sem stýrði viðræðum við Mike Pompeo, bandaríska utanríkisráðherrann, er sagður hafa verið sendur í þrælkunarvinnu eftir að viðræðunum var slitið.

Reuters segir að vísbendingar séu um að honum og öðrum embættismönnum hafi verið refsað vegna viðræðuslitanna en ekkert bendi til þess að þeir hafi verið líflátnir.


Tengdar fréttir

Viðræðum Trump og Kim óvænt slitið

Leiðtogafundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður Kóreu, í Víetnam sem fram fór í morgun varð mun styttri en menn höfðu gert ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×