Sport

Armstrong: Myndi ekki vilja breyta neinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lance Armstrong.
Lance Armstrong. vísir/getty
Frægasti lyfjasvindlari íþróttasögunnar, Lance Armstrong, segist ekki vilja breyta neinu ef hann fengi tækifæri til þess að gera hlutina upp á nýtt.

Bandaríski hjólreiðakappinn fékk lífstíðarbann frá íþróttinni árið 2012 og missti alla sjö Tour de France titlana sína. Það var samt ekki fyrr en síðar að hann viðurkenndi skipulagða svindlið í kringum titlana.

„Ég læri ekki af reynslunni ef ég haga mér ekki svona. Við gerðum það sem við þurftum að gera til þess að vinna. Þetta var ekki löglegt en ég myndi samt ekki breyta neinu. Skiptir ekki neinu að ég hafi farið úr því að vera hetja í að vera skúrkur og hafi þess utan tapað miklum peningum,“ sagði Armstrong í viðtali við NBC sem verður sýnt í næstu viku.

Saga hans er einstök enda fékk hann krabbamein en kom til baka og vann erfiðustu hjólreiðakeppni heims. Það var ekki fyrr en í janúar árið 2013 sem hann játaði allt svindlið í viðtali við Opruh Winfrey. Hann hjólaði fyrir lið bandaríska póstsins sem er auðvitað ríkisstyrkt. Á endanum greiddi hann 434 milljónir króna í sekt.

„Þetta voru mistök en ég lærði mikið af þessu. Ég myndi ekki vilja breyta neinu því þá hefði ég ekki lært allt sem ég hef lært út af þessu máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×