Innlent

Fer fram á milljarð í miska­bætur fyrir Guð­jón Skarp­héðins­son

Atli Ísleifsson skrifar
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarpshéðinssonar.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarpshéðinssonar. Fréttablaðið/GVA
Lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, eins sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, hefur krafist milljarðs króna í misabætur fyrir skjólstæðing sinn. Guðjón var líkt og flestir sakborninga í málinu á sínum tíma sýknaður í Hæstarétti á síðasta ári, tæpum fjörutíu árum eftir að dómur féll þar.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, greindi frá kröfunni í Silfrinu á RÚV í hádeginu. Fyrr í vikunni var greint frá því að sáttanefnd hafi fengið 600 milljónir króna til að skipta milli þeirra sem hlutu á sínum tíma dóm í málinu.

Ragnar sagði að fjárhæðirnar sem væru nefndinni til handa væru of lágar, væri litið til fordæma. Hann rakti málsmeðferðina og sagði sakborninga hafa sætt fordæmalausri meðferð. Mikilvægt væri fyrir almenning að fólk nyti réttlátrar málsmeðferðar.

„Þegar orðið hafa svona stór mistök af hálfu ríkisvaldsins þá verður ríkið að segja fólki að svona gerist ekki aftur og að það ætli að tryggja að það verði gert þannig að það sé augljóst að hvorki lögregla né dómstólar geti gert svona mistök aftur,“ sagði Ragnar.


Tengdar fréttir

Gætu krafið ríkið um fleiri milljarða í bætur

Engin leið er að vita hvernig dæmt yrði um bætur í Guðmundar- og Geirfinnsmálum færu þau fyrir dóm. Málin eru fordæmalaus. Ef byggt yrði á bótum til Klúbbmanna gæti heildarfjárhæðin numið nokkrum milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×