Handbolti

„Skrítið að fólki finnist ÍR ekki gott lið miðað við mannskapinn"

Arnar Helgi Magnússon skrifar
Patrekur Jóhannesson þjálfar Selfoss
Patrekur Jóhannesson þjálfar Selfoss vísir/vilhelm
 Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfyssinga var hæstánægður með sigur sinna manna gegn ÍR í úrslitakeppni Olísdeildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 27-26 sigri Selfyssinga eftir æsilegar lokamínútur. 

„Þetta var allt eins og það á að vera, eins og úrslitakeppnin á að vera. Við byrjuðum okkar aggresívu vörn, það gekk ekki nægilega vel og við áttum í erfiðleikum með Bjögga. Við fórum ekki nægilega vel út í hann. Síðan breytum við í 5+1 vörn og leiðum með tveimur mörkum í hálfleik. Ég var ánægður með þá breytingu,“ sagði Patrekur. 

Hann var ánægður með Sölva í markinu. Sölvi varði níu skot og var með 27 prósenta markvörslu. 

„Sölvi var mjög góður allan leikinn, ég var ánægður með hann. ÍR-ingarnir eru fanta góðir og reynslu mikið lið. Ég er mjög ánægður að hafa klárað þetta.“

Patti segist ekki skilja afhverju umræðan um ÍR sé eins og þeir séu með lélegt lið. 

„Mér finnst mjög skrítið að fólki finnist ÍR ekki góðir miðað við mannskapinn sem að þeir hafa. Nielsen í markinu, frábær. Sturla búinn að vera í landsliðinu og það vita allir hvað Bjöggi Hólmgeirs getur. Svenni í unglingalandsliðinu og línumennirnir frábærir. Maður getur nefnt allar stöður.”

„Það er eðlilegt að þeir hafi trú á sjálfum sér. Ég ætla að greina leikinn núna og sjá hvort að við getum gert eitthvað betur. Við skulum bara sjá hvað gerist á mánudag, við forum þangað til þess að vinna.“

ÍR-ingar fengu dauðafæri til þess að jafna metin undir lok leiksins en boltinn fór framhjá. Patti var sáttur við það að sleppa við framlenginguna. 

„Já ég held að allir þjálfarar vilji frekar vinna með einu en að fara í framlengingu. Nú keyri ég yfir heiðina og síðan ætla ég að klippa þennan leik og sjá hvort að það séu atriði sem að við getum gert betur. Við hittumst síðan í hádeginu á morgun og tökum æfingu,“ sagði Patti að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×