Lífið

Herra Brennslan verður í beinni á Vísi: „Eitthvað við þetta andlit, sem dáleiðir konur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Strákarnir eru klárir í slaginn.
Strákarnir eru klárir í slaginn.
Herra Brennslan 2019 fer fram í beinni útsendingu á Vísi og FM957 á mánudagsmorguninn. Keppnin hefst klukkan 09:00 en þar keppa þeir Hjörvar Hafliðason, Kjartan Atli Kjartansson og Ríkharð Óskar Guðnason.

Um er að ræða fyrstu fegurðarsamkeppni karla hér á landi í tólf ár og hafa þremenningarnir lagt gríðarlega mikla vinnu á sig síðustu mánuði, alveg frá áramótum. Vísir leit við í hljóðveri FM957 í morgun og ræddi við keppendur.

„Þetta verður bara allur pakkinn á mánudaginn. Það verður framkoma, útlit og vöxtur,“ segir Hjörvar Hafliðason.

„Við erum menn hreinskilinnar og ákváðum að fara í þetta verkefni og sjá hver er fallegastur og hver er ljótastur. Við sykurhúðum ekki neitt og á mánudaginn fá áhorfendur að sjá afraksturs blóðs svita og tára. Það hefur verið nóg af því í undirbúningi keppninnar þar sem við höfum verið að undirbúa okkur í nokkra mánuði og höfum lagt allt í sölurnar,“ segir Kjartan Atli.

„Ég er búinn að skafa af mér nokkur kíló, það er óhætt að segja það. Þetta er bara alltaf eins og Groundhog Day hjá mér. Það er tveggja stafa tala eftir sumarið og mínus tveggja stafa tala um vetur. Aðalkeppnin hjá mér eftir mánudaginn verður að halda mér eins og ég er og halda kannski aðeins áfram,“ segir Ríkharð.

„Það vinnur ekki með mér að ég er orðinn það gamall að maður verður bara ljótari með árunum,“ segir Hjörvar. Ef þessi keppni hefði verið fyrir tíu árum síðan þá hefði ég pakkað þessu saman. Þetta er ekki bara útlit. Ég og Kjartan eru töluvert betri en Rikki á skrokkinn en hann er með tattoo-in sem dömur elska, hann er með bílinn sem dömur elska og hann er með þetta bad boy lúk sem við höfum ekki.“

Í keppninni á mánudaginn verður öllu tjaldað til. Keppninni verður lýst af fagfólki og einnig hefur verið mynduð dómnefnd. Keppendur koma fram á sundfötum og síðan í kvöldklæðnaði.

„Maður skilur núna hvað stelpurnar sem hafa verið að keppa í fegurðarsamkeppnum, að stíga út fyrir þægindarammann. Ég bjóst aldrei sjálfur við því að keppa í fegurðarsamkeppni,“ segir Hjörvar.

„Það sem Rikki hefur fram yfir okkur er andlitið á honum. Þetta er ábyggilega næstfallegasta andlit sem ég hef séð á Íslandi. Þetta er hættuleg blanda af Andy Garcia og José Mourinho. Það er eitthvað við þetta andlit, sem dáleiðir konur,“ segir Hjörvar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×