Erlent

Sviss­lendingur dæmdur eftir morðin í Marokkó

Atli Ísleifsson skrifar
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn.
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn. Myndir/Facebook
Dómstóll í Marokkó hefur dæmt 33 ára svissnesk-breskan mann í tíu ára fangelsi í tengslum við morðin á hinni norsku Maren Ueland og hinni dönsku Louisu Vesterager Jespersen í Atlasfjöllum í desember síðastliðinn. Maðurinn var fundinn sekur um að hafa verið virkur innan hryðjuverkasamtaka.

Í frétt NRK segir að maðurinn hafi ekki verið dæmdur fyrir beina aðild að morðunum á konunum. Hann hafi hins vegar meðal annars verið fundinn sekur um þátttöku í hryðjuverkasamtökum og að ekki hafa tilkynnt um glæp.

Maðurinn var handtekinn í byrjun janúar, en áður hafði 25 ára Svisslendingur sömuleiðis verið handtekinn í tengslum við málið. Sá var grunaður um að hafa kennt liðsmönnum hryðjuverkahópsins, sem stóð fyrir árásinni á konunum, á vopn.

Verjandi hins dæmda segir dóminn óskiljanlegan og að honum verði áfrýjað.

Svissneskir fjölmiðlar segja Svisslendingana hafa þekkst, en hinn dæmdi segist hafa starfað fyrir leyniþjónustu Sviss og gefið þeim upplýsingar úr moskustarfinu í Genf. Talsmaður svissnesku leyniþjónustunnar segir hana hafa verið í samskiptum við manninn, en að hann hafi ekki starfað á þeirra vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×