Erlent

Kasakar breyta nafni höfuðborgarinnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kassym-Jomart Tokayev sór embættiseið í gær og lagði við það tækifæri til að nafni höfuðborgar landsins yrði breytt.
Kassym-Jomart Tokayev sór embættiseið í gær og lagði við það tækifæri til að nafni höfuðborgar landsins yrði breytt. Getty/Anadolu Agency
Kasöksk stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að breyta nafni höfuðborgar landsins. Borgin, sem áður hét Astana, mun frá og með deginum í dag bera nafnið Nursultan til heiðurs Nursultan Nazarbayev sem sagði óvænt af sér sem forseti Kasakstans í gær.

Nazarbayev hafði verið æðsti embættismaður Kasakstan allt frá falli Sovétríkjanna undir loka níunda áratugar síðustu aldar, fyrst sem leiðtogi Kommúnistaflokksins í Kasakstan og svo sem forseti. Hann er 78 ára og hefur ítrekað verið endurkjörinn forseti landsins með miklum mun, síðast árið 2015. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafa þó ávallt gagnrýnt framkvæmd kosninganna.

Kassym-Jomart Tokayev tók við embætti forseta í gær en hann hafði áður gegnt embætti forseta efri deildar kasakska þingsins. Það var einmitt að frumkvæði Tokayev sem ákveðið var að breyta nafni höfuðbogarinnar. Kasakska þingið beið ekki boðanna og samþykkti nafnabreytinguna samdægurs.

Astana, sem þýðir einfaldlega „höfuðborg“ á kasöksku, varð höfuðborg Kasakstan árið 1997. Fram að því hafði Almaty verið höfuðborg landsins, en hún er enn fjölmennta borg landsins.

Dóttir fráfarandi forseta, Dariga Nazarbayeva, tók við embætti þingforseta þegar Tokayev settist á forsetastól. Því eru margir þegar farnir að leiða að því líkum að hún kunni að bjóða sig fram í forsetakosningum næsta árs.

Kasakstan er ríkt af olíu og eru íbúar þess um 18 milljónir, þar af rúmlega 800 þúsund í Nursultan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×