Umfjöllun og viðtöl KA 27-29 Selfoss │Selfoss sótti tvö stig í KA-heimilið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hergeir Grímsson var öflugur í KA-heimilinu í kvöld.
Hergeir Grímsson var öflugur í KA-heimilinu í kvöld.
Selfoss ætlar ekkert að gefa eftir í baráttunni um deildarmeistaratitilinn en í kvöld gerði liðið góða ferð til Akureyrar þar sem þeir voru í heimsókn hjá KA í 18.umferð Olís-deildarinnar.

Selfyssingar sýndu mátt sinn og megin strax í upphafi leiks og litu eiginlega aldrei til baka eftir það. KA-menn spiluðu 7 á móti 6 til að byrja með og var það ekki að virka mjög vel. KA-liðið lék án aðal leikstjórnanda síns þar sem Jón Heiðar Sigurðsson var fjarri góðu gamni og sá gamla brýnið Heimir Örn Árnason um að stýra sóknarleiknum til að byrja með.

Selfoss byggði jafnt og þétt upp forskotið. Þeir náðu mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik en sex mörkum munaði á liðunum í leikhléi, 10-16.

Eflaust voru ekki margir sem trúðu á endurkomu heimamanna í síðari hálfleik en það gerðu þeir sjálfir þó svo sannarlega því KA-menn náðu að koma sér inn í leikinn í síðari hálfleik með mikilli seiglu.

Þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum fékk KA tækifæri til að minnka muninn niður í eitt mark en sókn þeirra þá var ekki vel útfærð. Raunar var ekkert mark skorað á síðustu tveimur mínútunum og unnu Selfyssingar þar með tveggja marka sigur, 27-29.



Afhverju vann Selfoss?

Það dylst engum að Selfoss er eitt allra besta handboltalið landsins og þegar þeir eru á deginum sínum eru ekki mörg lið sem eiga roð í þá. Þeir leystu þetta verkefni einfaldlega mjög fagmannlega.

Selfyssingar lögðu grunninn að sigrinum með góðum fyrri hálfleik og þrátt fyrir hetjulega baráttu heimamanna var munurinn orðinn of mikill. KA-menn voru of lengi í gang og það er ekki hægt að leyfa sér það gegn jafn sterku liði og Selfoss.

Bestu menn vallarins

Hergeir Grímsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu 16 af 29 mörkum Selfyssinga og voru mjög fyrirferðarmiklir í sóknarleik þeirra.

Pawel Kiepulski var mjög góður í fyrri hálfleik og virtist vel undirbúinn fyrir stórskyttur KA-manna. Hann var hins vegar ekki jafn öflugur í síðari hálfleiknum.

Í liði KA var færeyski hægri vængurinn atkvæðamikill. Allan Norðberg átti líklega sinn besta leik í KA treyjunni þar sem hann nýtti sín færi mjög vel. 7 mörk úr 8 skotum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur KA leit ekki vel út framan af leik og eflaust hefur fjarvera Jóns Heiðars Sigurðssonar sitthvað með það að gera enda hefur hann stýrt sóknarleiknum af festu í vetur. Eins voru stórskytturnar Tarik Kasumovic og Áki Egilsnes lengi í gang á meðan Selfyssingar voru að salla inn mörkum.

Hvað er næst?

Uppgjör toppliðanna er næst á dagskrá hjá Selfossi þar sem þeir fá Hauka í heimsókn eftir slétta viku. KA-menn heimsækja Aftureldingu næstkomandi sunnudag.

Patrekur: Átti mín bestu ár í handboltanum hér
Patrekurvísir/daníel
„Ég er bara ánægður. KA-liðið er hrikalega sterkt hérna á heimavelli og þeir gefast aldrei upp. Ég vissi það alveg. Fyrri hálfleikurinn mjög vel leikinn; við vorum mjög einbeittir og héldum leikplani og markvarslan var eftir því,“

„KA kom til baka og þetta varð hörkuleikur í restina en að koma hingað og ná í tvö stig er bara gott,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í leikslok eftir að hafa séð sína menn leggja KA að velli í Olís-deild karla í kvöld.

Patrekur er einn af þremur leikmönnum í frægðarhöll KA og er óhætt að segja að hann sé í miklum metum hjá stuðningsmönnum KA eftir að hafa leikið fyrir félagið á bestu árum þess á tíunda áratug síðustu aldar.

Óttaðist Patrekur ekkert að töfrar KA-heimilisins myndu ná undir skinnið á yngri leikmönnum liðsins þegar KA náði áhlaupi í síðari hálfleik.

„Jú algjörlega. Ég þekki þetta hús mjög vel og átti mín bestu ár í handboltanum hér. Þess vegna veit ég alveg að það er kraftur í þessu húsi. Það voru læti í mér og ég var á mörkunum að fá gult spjald. Það var spenna í mér. KA-lið er feykisterkt og Stebbi er klókur þjálfari sem kemur oft með flókin verkefni og þess vegna var ég ekkert rólegur fyrr en alveg í restina,“ sagði Patrekur. 

Atli Ævar Ingólfsson tók ekki frekari þátt í leiknum eftir að hafa fengið þungt högg á andlitið í fyrri hálfleik.

„Hann fékk á lúðurinn og ég á eftir að kíkja á það. Það er alltaf tekið fast á Atla. Hann er líkamlega sterkur og þetta er ekkert í fyrsta skipti sem tekið er fast á honum. Við ákváðum að nota hann ekkert meira eftir það og það er slæmt að missa hann en Guðni gerði vel. Það er breidd í liðinu,“ sagði Patrekur.

Stefán: Grófum okkur full djúpa holu í fyrri hálfleik
Stefán Rúnar Árnasonvísir/bára
„Þetta er svekkjandi. Við ætluðum okkur að fá eitthvað út úr þessum leik en grófum okkur kannski full djúpa holu í fyrri hálfleik. Við köstuðum svolítið leiknum frá okkur og vorum með allt of erfiða stöðu í hálfleik. Við reyndum að gera leik úr þessu og náum að minnka þetta vel niður en ekki alla leið,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari KA í leikslok.

Hann var ánægður með hvernig gekk að spila 7 á móti 6 og telur sig geta ýmislegt gott úr leiknum.

„Mér fannst það virka að mörgu leyti mjög vel. Vorum að spila upp á góð færi og fín mörk. Við getum tekið það úr þessum leik.“

„Við getum tekið mjög mikið úr seinni hálfleiknum. Við neituðum að gefast upp og börðumst allt til enda. Við fengum fólkið með okkur og örlítið meiri klókindi í restina hefði getað gefið okkur möguleika á að ná eitthvað út úr þessu,“ segir Stefán.

Jón Heiðar Sigurðsson hefur verið aðalleikstjórnandi KA í vetur en var ekki með í dag.

„Við söknum allra sem að spila ekki og hann hefur bara verið í endurhæfingu. Það er mjög stutt í hann. Sóknarleikurinn var kannski ekkert frábær en við skoruðum 27 mörk, það er eitthvað. Í fyrri hálfleik köstuðum við þessu svolítið frá okkur þegar við erum að gefa þeim hraðaupphlaup og þar hefðum við þurft að framkvæma hlutina betur,“ sagði Stefán að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira