Fótbolti

Hægt að kaupa upp nýja samninginn fyrir 68 milljarða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez fagnar marki með þeim Lionel Messi, Ousmane Dembele og Jordi Alba.
Luis Suarez fagnar marki með þeim Lionel Messi, Ousmane Dembele og Jordi Alba. Vísir/Getty
Barcelona var í gær að ganga frá nýjum langtímasamningi við spænska bakvörðinn Jordi Alba.

Jordi Alba hefur verið frá félaginu frá árinu 2012 en nýr samningur þessa 29 ára leikmanns nær nú til ársins 2024.





Eins og venjan er á Spáni þá er hægt að kaupa upp samninginn en upphæðin hjá Jordi Alba vekur mikla athygli.

Ætli félag að kaupa upp nýjan samning Jordi Alba þá þarf viðkomandi félag að borga 500 milljónir evra eða 68 milljarða íslenska króna.

Jordi Alba hafði skrifað undir fimm ára samning árið 2015 og þá var hægt að kaupa upp samninginn fyrir 150 milljónir evra.  

Það er ekki verið að tala um leikmann eins og Lionel Messi eða Luis Suarez heldur traustan leikmann sem hefur skilað flottum tímabilum með Börsungum en verður samt seint talinn 68 milljarða virði.





Jordi Alba kom til Barcelona frá Valencia sumarið 2012 og hefur síðan unnið fjórtán titla með Barcelona þar af spænsku deildina fjórum sinnum og Meistaradeildina einu sinni.

Jordi Alba er fastamaður í Barcelona liðinu og hefur þegar spilað 36 leiki á þessu tímabili. Barcelona er líklegt til að bæta við titlum enda er liðið á toppnum í deildinni, komið í úrslitaleik bikarsins og er enn með í baráttunni í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×