Íslenski boltinn

Markaveislur í Lengjubikarnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elfar Árni skoraði þrennu fyrir KA
Elfar Árni skoraði þrennu fyrir KA vísir/ernir
Það var mikið um markaveilsur í Lengjubikarnum í dag. KA hafði betur gegn Aftureldingu, Fylkir vann ÍBV, Víkingur Ólafsvík og Þróttur gerðu jafntefli.

Hákon Ingi Jónsson og Emil Ásmundsson komu Fylki í 2-0 áður en tíu mínútur voru liðnar af leiknum og Ragnar Bragi Sveinsson bætti þriðja markinu við á 28. mínútu.

Ásgeir Eyþórsson skoraði fjórða mark Fylkis á 62. mínútu og virtist leikurinn úti.

Telmo Ferreira Castanheira skoraði hins vegar fyrir Eyjamenn nokkrum mínútum síðar og var möguleiki á endurkomu enn fyrir hendi.

Tíminn var þó ekki að vinna með Eyjamönnum og þó Leonard Sigurðsson hefði fengið sitt annað gula spjald og þar með rautt þá náðu þeir ekki nema einu marki í viðbót, það gerði Sigurður Arnar Magnússon undir lokin.

Lokatölur 4-2 í Árbænum.

Í Ólafsvík var einnig skorað nóg af mörkum þegar heimamenn í Víkingi tóku á móti Þrótti.

Ibrahim Sorie Barrie kom heimamönnum yfir á 26. mínútu en sjö mínútum síðar jafnaði Hreinn Ingi Örnólfsson. Grétar Snær Gunnarsson kom Víkingi aftur yfir áður en fyrri hálfleikur var úti og leiddu heimamenn því í leikhléi.

Gústav Kári Óskarsson jafnaði á ný fyrir Þrótt og Aron Þórður Albertsson kom gestunum yfir úr víti á 68. mínútu.

Kristinn Magnús Pétursson reyndist svo hetja heimamanna en hann jafnaði metin á 77. mínútu og tryggði Víkingi stig. Lokatölur 3-3.

Afturelding tók á móti KA og fór þannig að KA vann 5-3 sigur.

Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði þrennu fyrir KA og Guðjón Pétur Lýðsson og Sæþór Olgeirsson skoruðu sitt markið hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×