Enski boltinn

Mourinho: Liverpool liðið viltist af leið eftir jafnteflið við Leicester

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naby Keita fellur í teignum í leiknum á móti Leicester.
Naby Keita fellur í teignum í leiknum á móti Leicester. Getty/Robbie Jay Barratt
Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, tjáði sig um Liverpool liðið við beIN Sports þar sem hann starfar nú sem knattspyrnuspekingur eftir hann var rekinn frá Old Trafford.

Jose Mourinho tók þátt í umræðunni í sjónvarpssal eftir markalaust jafntefli Liverpool á móti Everton um helgina.

Mourinho segir 30. janúar hafa verið örlagadaginn fyrir Liverpool-liðið en þá gátu lærisveinar Jürgen Klopp náð sjö stiga forystu á Manchester City. Nú rúmum mánuði síðar er staðan allt önnur.

Manchester City náð eins stigs forystu á Liverpool eftir umferðina um helgina.

Ástæðan fyrir því að Portúgalinn nefnir 30. janúar er að á þeim degi gerði Liverpool 1-1 jafntefi við Leicester City en sá leikur fór fram daginn eftir að City tapaði mjög óvænt fyrir Newcastle.



„Ég fékk það á tilfinninguna að City hafi þá fengið vind í seglin. Þetta eru leikir sem þú verður að klára,“ sagði Jose Mourinho.

„Hversu mörgum leikjum mun City tapa á tímabilinu? Ekki mörgum, svo þegar þeir loksins tapa einum þá verður þú að vinna þinn leik,“ sagði Mourinho.

„Ég man líka eftir samfélagsmiðlunum eftir tapleiki City á móti Newcastle þar sem allir voru að tala um það að City væri búið að missa af titlinum, meira að segja leikmenn City. Svo mistókst Liverpool liðinu að vinna daginn eftir,“ sagði Mourinho en hér fyrir neðan fer hann yfir þetta.





Mourinho er á því að eftir þetta áfall á heimavelli á móti liði eins og Leicester City sem var í vandræðum á þessum tíma, þá hafi Liverpool liðið vilst af leið.

Frá og með 30. janúar hefur Liverpool aðeins unnið 2 af 5 leikjum sínum í deildinni en þremur þeirra lauk með jafntefli. Á sama tíma hefur City-liðið klárað sína leiki og er nú komið í toppsæti deildarinnar.

Það sem meira er að frá þessu jafntefli Liverpool við Leicester City hefur Liverpool þrisvar sinnum klárað 90 mínútur mínútur án þess að ná að skora eitt einasta mark ef við tökum með heimsleikinn í Meistaradeildinni á móti Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×