Körfubolti

Wade skipti um treyju við lítt þekktan leikmann í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade og Kevin Huerter eftir leik.
Dwyane Wade og Kevin Huerter eftir leik. Getty/Michael Reaves/
Dwyane Wade kom mörgum á óvart eftir leik Miami Heat og Atlanta Hawks ekki síst þeim leikmanni sem fékk Miami-treyjuna hans í leikslok.

Dwyane Wade er á sínu síðasta tímabili í NBA-deildinni og hefur það fyrir sið að skiptast á treyjum við leikmann í liði mótherjanna eftir hvern leik.

Wade hefur öðlast mikla virðingu á sínum ferli í NBA og á marga góða kunningja meðal bestu leikmanna deildarinnar. Wade hefur skipt um treyjur við menn eins og LeBron James, Stephen Curry og Ben Simmons og það vilja margir komast yfir treyju þessa frábæra leikmanns.





Dwyane Wade var að mæta Atlanta Hawks í þriðja sinn á tímabilinu í nótt og hafði áður skipt um treyjur við þá Vince Carter og Trae Young.  Vince Carter er goðsögn í deildinni og Trae Young er einn af bestu nýliðum ársins.

Það kom flestum á óvart þegar Dwyane Wade fór til hins lítt þekkta Kevin Huerter í leikslok. Kevin Huerter er tvítugur á sínu fyrsta ári í NBA-deildinni. Atlanta Hawks valdi hann númer nítján í nýliðavalinu síðasta sumar.

Kevin Huerter er með 9,4 stig, 3,2 fráköst og 2,7 stoðsendingar að meðaltali á 27,2 mínútum í vetur. Hann er 201 sentímetra skotbakvörður.

Dwyane Wade ákvað að verðlauna leikmann sem var með Wade sjálfan sem fyrirmynd og spilaði meira að segja í sama númeri og hann.



„Hann var vanur að spila í mínum skóm. Hann spilar í númer þrjú vegna mín. Hann horfði upp til mín. Ég vissi því að ætlaði að koma honum á óvart í síðasta skiptið sem ég spilaði á móti honum,“ sagði Dwyane Wade.

Dwyane Wade skoraði 23 stig á 31 mínútu í leiknum og var einnig með 5 stoðsendingar og 2 varin. Kevin Huerter skoraði 13 stig á 24 mínútum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×